Mikið er um að vera hjá Halaleikhópnum um þessar mundir. Námskeið í Sagnalist með Ólöfu Ingibjörgu Davíðsdóttur er um það bil að hefjast og stefnt er að því að halda Ljósanámskeið í október með Benedikt Axelssyni.

Og nú var Halaleikhópurinn að ráða Guðjón Sigvaldason leikstjóra til að leikstýra hópnum í vetur.

Guðjón er hópnum vel kunnugur en hann hefur sett upp 3 sýningar með Halaleikhópnum. Hann leikstýrði  Fílamanninum 2004, Kirsuberjagarðinum 2005 og Gaukshreiðrinu 2008 en sú sýning skilaði Halaleikhópnum á svið Þjóðleikhússins þegar hún var valin athyglisverðasta áhugasýning ársins leikárið 2007 – 2008. Auk þess hefur Guðjón verið með leiklistarnámskeið hjá félaginu árin 2003 og 2004.

Fyrirhugað er að fara í sakamálagírinn og sýna leikritið Tíu litlir Negrastrákar eftir Agöthu Christie Stefnt verður að frumsýningu í lok janúar 2015. Leikritið fjallar um hóp fólks sem kemur saman á eyju, gestgjafinn er hvergi sjáanlegur en rödd af hljóðupptöku sakar þau öll um morð. Síðan taka þau að týna tölunni og negrastrákarnir tíu á arinhillunni hverfa í takt við það.

Myndin er af formanni Halaleikhópsins Vilhjálmi Guðjónssyni og Guðjóni Sigvaldasyni leikstjóra.