Nýjung hjá Borgarleikhúsinu. Nú gefst áhugafólki um leikhús tækifæri til að koma á opinn samlestur í Borgarleikhúsinu. Verkið Beint í æð eftir Ray Cooney í leikstjórn Halldóru Geirharðsdóttur verður leiklesið þriðjudagsmorguninn 9. september kl 9. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum.

Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni.

Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.

Verkið  Hvað myndir þú gera ef þú værir háttsettur læknir við stærsta sjúkrahús höfuðborgarinnar á leiðinni að flytja fyrirlestur ársins á norrænni læknaráðstefnu, nokkuð sem gæti fært þér yfirlæknisstöðu, fálkaorðu og fleiri eftirsóknarverðar vegtyllur – þegar á vettvang mætir, án þess að gera boð á undan sér, illa fyrirkölluð fyrrum kærasta á besta aldri ásamt afleiðingunum af ástarfundum ykkar nákvæmlega 18 árum og 9 mánuðum áður? Er þetta ekki ávísun á ógnarklúður?

Jón Borgar, vellukkaður og velkvæntur tauga- sérfræðingur hefur séð það svart um sína daga. En dagleg glíma hans með skurðhnífinn, þar sem hársbreidd skilur jafnan milli lífs og dauða, reynist hreinasti barnaleikur í samanburði við það sem hann á í vændum.

Borgarleikhúsið hefur áður sýnt gamanleiki Ray Cooney við gríðarlegar vinsældir og met- aðsókn, Viltu finna milljón? og nú síðast Nei, ráðherra! sem gekk í tvö leikár á Stóra sviðinu. Gísli Rúnar íslenskaði og heimfærði bæði verkin við afbragðs viðtökur.

Aðstandendur Höfundur: Ray Cooney | Íslensk heimfærsla: Gísli Rúnar Jónsson | Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir |Tónlist: Ólafur Björn Ólafsson | Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson |  Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen| Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Guðjón Davíð Karlsson, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Örn Árnason.