ImageMánudagskvöldið 27. mars, á alþjóðlega leikhúsdaginn, verða úrslit í örleikritasamkeppni framhaldsskólanna kynnt. Fræðsludeild Þjóðleikhússins og leiklistardeild Listaháskóla Íslands standa fyrir samkeppninni.

Alls bárust á þriðja tug handrita hvaðanæva að af landinu. Fimm leikrit voru valin til flutnings í Kassanum, nýju leiksviði Þjóðleikhússins. Flytjendur eru nemendur í þriðja bekk leiklistardeildar LHÍ en leikstjóri er Ingibjörg Þórisdóttir. Dómnefnd, sem skipuð er Þórhalli Sigurðssyni, leikstjóra og deildarstjóra fræðsludeildar, Ragnheiði Skúladóttur, deildarforseta leiklistardeildar LHÍ og Jóhannesi Helgasyni frá Spron, mun velja vinningshafa úr þessum verkum.

Vegleg verðlaun eru í boði. Sigurvegarinn hlýtur 50 þúsund krónur, önnur verðlaun eru 30 þúsund krónur og þriðju verðlaun eru 20 þúsund krónur. Auk þess fá verðlaunahafar gjafakort í Þjóðleikhúsið.

Þetta er í þriðja sinn sem fræðsludeild Þjóðleikhússins og leiklistardeild LHÍ standa fyrir örleikritasamkeppni meðal framhaldsskólanema.

Bjargföst trú á uppeldis- og menningarlegt gildi leiklistar býr að baki stofnunar fræðsludeildar við Þjóðleikhúsið. Deildinni er ætlað að efla samskipti leikhússins við skólana í landinu, m.a. með námskeiðahaldi fyrir kennara, útgáfu á námsefni og með samstarfsverkefnum eins og örleikritasamkeppninni.

Styrktaraðili örleikritasamkeppninnar er SPRON.