ImageStjórn Bandalags íslenskra leikfélaga hefur valið sýninguna Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur til að vera fulltrúi Íslands á 4. NEATA-leiklistarhátíðinni sem fram fer í Færeyjum dagana 2.-8. ágúst nk. Sýningin er eins og kunnugt er samvinnuverkefni Leikfélags Kópavogs og Hugleiks en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Val stjórnar var reyndar ekki erfitt þar sem ekki var sótt um fyrir fleiri sýningar en stjórnin var sammála um að sýningin væri afar verðugur fulltrúi íslenskrar leiklistar og Bandalagsins. Þessi félög hafa reyndar verið fulltrúar Íslands á NEATA-hátíðum hingað til, Hugleikur sýndi Bíbí og blakan í Litháen árið 2000 og Undir hamrinum í Eistlandi 2004 og Leikfélag Kópavogs fór með Grimms til Svíþjóðar 2002.

Markmið hátíðarinnar er að efla samstarf áhugaleikfélaga á Norðurlöndum og í baltnesku löndunum. Á hátíðinni verða sýningar frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi og Svíþjóð auk þess sem námskeið verða haldin, farið verður í skoðanaferðir og hátíðarklúbbur starfræktur. Til gamans má geta þess að sterkar líkur eru á að NEATA-hátíðin verði haldin hér á landi árið 2010.