Föstudaginn 5. ágúst síðastliðinn var söngleikurinn Hársprey frumsýndur í Bæjarleikhúsinu hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Að söngleiknum koma 37 ungmenni á aldrinum 13-18 ára sem öll sameina krafta sína í leik, söng, dansi og búningagerð. Söngleikurinn er afrakstur námskeiða sem leikfélagið stóð fyrir í sumar, annars vegar leiklistarnámskeiðs og hins vegar búninganámskeiðs. Listrænir stjórnendur eru Agnes Wild, leikstjóri, Sigrún Harðardóttir, tónlistarstjóri, Elísabet Skagfjörð, danshöfundur og Eva Björg Harðardóttir sem hafði umsjón með búninga- og förðunarnámskeiðinu.

Söngleikurinn sem gerist í Baltimore í upphafi 7. áratugarins segir frá Tracy Turnblad, þybbinni unglingsstúlku sem á sér þann draum heitastan að dansa í sjónvarpsþætti Corny Collins í sjónvarpi borgarinnar. Tracy uppgötvar sér til mikillar skelfingar hversu illa er farið með svarta í þáttunum og í bænum almennt og setur allt á annan endann með því að hefja réttindabaráttu svartra.

Sýningar í Bæjarleikhúsinu, Mosfellsbæ eru eftirfarandi:

4. sýning – þriðjudaginn 9. ágúst kl. 20
5. sýning – fimmtudaginn 11. ágúst kl. 20
6. og 7. sýning – sunnudaginn 14. ágúst kl. 14:00 og 17:00

Miðaverð 1.500 kr. Miðasala er í síma 5667788.

Nánari upplýsingar má finna á www.facebook.com/harsprey