Nú eru æfingar hafnar á fyrsta verki Leikfélags Fjallabyggðar, en Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar sameinuðust formlega í Leikfélag Fjallabyggðar 12. júlí 2013. Áður unnu félögin saman af mikilli prýði að uppsetningu á verkinu Stöngin inn! sem var samið og leikstýrt af Guðmundi Ólafssyni, en félögin enduðu á fjölum Þjóðleikhússins með þá sýningu.

Síðastliðinn mánudag, þann 27. janúar 2014, var kynningarfundur á nýju verki sem Leikfélag Fjallabyggðar er að fara að setja á svið. Guðmundur Ólafsson er kominn aftur í Fjallabyggðina og mætti á fundinn með sjóðheitt frumsamið handrit sem hann ætlar að leikstýra. Gummi Fjólu, eins og hann er kallaður hér norðan heiða, greindi lauslega frá verkinu og fór yfir starfið framundan, en mikill fjöldi mætti á þennan fyrsta fund og er augljóslega mikill áhugi og hugur í leiklistarfólki í Fjallabyggð.

Fyrsti samlestur var síðan á þriðjudaginn 28. janúar 2014 og óhætt er að segja að áhorfendur eigi von á mikilli skemmtun, því mikið var hlegið á þessum fyrsta samlestri. Ekki verða fleiri orð höfð um verkið í bili nema að leikhúsgestum getur farið að hlakka til að skemmta sér í leikhúsinu með Leikfélagi Fjallabyggðar en stefnt er á frumsýningu í byrjun mars.