Stjórn Leikfélags Reykjavíkur, Borgarleikhúsinu, hefur ákveðið að ráða Kristínu Eysteinsdóttur leikstjóra sem næsta leikhússtjóra Borgarleikhússins. Umsóknir um starfið voru á annan tug og eftir vandað ráðningarferli ákvað stjórn LR einróma að ráða Kristínu Eysteinsdóttur sem næsta leikhússtjóra.

Kristín Eysteinsdóttir lauk meistaragráðu í leikstjórn frá Goldsmiths University of London árið 2007, en hafði áður lokið BA námi í dramatúrgíu frá Árósarháskóla árið 2002. Kristín hefur verið fastráðinn leikstjóri við Borgarleikhúsið frá árinu 2008 og í stjórnendateymi leikhússins á síðustu misserum.  Hún á að baki margar rómaðar sýningar, þ.á.m. Svar við bréfi Helgu, Fólkið í kjallaranum, Núna!, Dúfurnar, Rústað, Penetreitor og Sá ljóti en fyrir þá sýningu hlaut hún Grímuna. Kristín vinnur nú að uppsetningu  á nýju leikriti Kristínar Marju Baldursdóttur, Ferjunni en það verður frumsýnt í lok mars.

Leikfélag Reykjavíkur er eitt elsta menningarfélag landsins en saga þess spannar 117 ár. Félagið flutti úr Iðnó upp í Borgarleikhús árið 1989. Síðustu ár hafa verið afar blómleg í Borgarleikhúsinu en árlegur gestafjöldi er nú 210-220.000 manns sem er það mesta í íslenskri leikhússögu. Kristín mun taka við stjórnartaumunum í marsmánuði og halda áfram vinnu við undirbúning nýs leikárs sem er þegar langt á veg kominn. Leikhúsið er á mikilli siglingu enda hefur yfirstandandi leikár gengið afar vel. Framundan eru frumsýningar sem miklar væntingar eru bundnar til.

„Ég óska Kristínu hjartanlega til hamingju með ráðninguna og býð hana velkomna til starfa. Kristín hefur verið einn helsti listamaður Borgarleikhússins og íslensks leikhúslífs um árabil og ég veit að hún á eftir að halda vel utan um framúrskarandi hóp starfsmanna Borgarleikhússins og leiða hann til nýrra sigra,“  segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður stjórnar LR.

“Ég tek við einstaklega góðu búi sem eru mikil forréttindi. Ég hef verið svo heppin að eiga stóran þátt í að byggja upp leikhúsið í þeirri mynd sem það er í dag og er afar þakklát fyrir að fá tækifæri til að leiða leikhúsið og þann góða hóp sem þar starfar inn í nýja og spennandi tíma“ segir Kristín Eysteinsdóttir.