Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga hefur ákveðið að framlag Íslands til IATA leiklistarhátíðarinnar í Tromsö 2011 verði uppsetning Leikfélagsins Peðsins á Komið og farið eftir Samuel Beckett í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar í íslenskri þýðingu Árna Ibsen. Það verður svo valnefnd á vegum IATA (Alþjóða áhugaleikhúsráðsins) sem sker endanlega úr hvort sýningin verður valin til sýninga í Tromsö og mun það skýrast þann 15. nóvember nk. Valnefnd á vegum Bandalagsins, skipuð þeim Guðfinnu Gunnarsdóttur, Hrund Ólafsdóttur og Herði Sigurðarsyni mælti með Komið og farið umfram sýningu Hugleiks á Rokki.
Með úrskurði sýnum sendi valnefndin eftirfarandi greinargerð:
Valnefnd vegna leiklistarhátíðar IATA í Tromsö árið 2011 hefur komið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu.
Tvö leikfélög sóttu um með leiksýningu á hátíðina. Annarsvegar Leikfélagið Hugleikur með Rokk eftir Ástu Gísladóttur, Júlíu Hannam, Sigurð Pálsson og Þórarinn Stefánsson og tónlist eftir Eggert Hilmarsson. Leikstjórar voru Þorgeir Tryggvason og Hulda Hákonardóttir. Hinsvegar Leikfélagið Peðið með Komið og farið eftir Samuel Beckett í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Valnefnd gaf sér þær forsendur að miða við val sýninga á nýafstaðna NEATA hátíð á Akureyri. Í ljósi gagnrýni sem þar kom fram vegna sýningavals og einnig hefur heyrst áður, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að mæla með hvorugri sýningunni sem framlagi Íslands á hátíðina.
Rök valnefndar eru þessi:
Sýningin Rokk hjá Hugleik er allt of löng miðað við þau tímamörk sem sett eru. Handrit hefur umtalsverða galla og sýningin í heild er heldur langdregin. Tónlistin er afar áheyrileg og vel flutt en nefndin getur ekki með góðri samvisku mælt með sýningunni eingöngu á þeim forsendum. Sýningin er afar kyrrstæð, statísk, og þar sem textinn að auki er svo stór þáttur, er vandséð að hún höfði til áhorfenda sem ekki skilja það sem sagt er. Erfitt er að ímynda sér að hægt sé að breyta því nema með mikið endurskoðaðri leikstjórn auk styttingar. Sennilegt má telja að sýningin batni við styttingu og endurhugsun en nefndin telur það ekki á færi sínu að meta hvernig þar muni til takast enda væri þar um hreina ágiskun að ræða. Ef aðeins væri um 10-20 mínútna styttingu að ræða réði það ekki úrslitum en þar sem skera þarf hana niður um helming gegnir öðru máli.
Komið og farið hjá Peðinu er skemmtileg og frumleg og trú texta Samuels Becketts. Hún er jafnframt sjónræn og vel fram sett. Hins vegar er sýningin afar stutt og spurning hvort slík sýning eigi heima á hátíð sem þessari sem nær undantekningarlaust hefur lengri sýningar á dagskránni. Ef hinsvegar stjórn BÍL sem hlýtur að hafa síðasta orðið í þessu efni, telur að neðri tímamörk eigi ekki að skipta máli getur valnefnd á þeim forsendum mælt með sýningu Peðsins.
Almennt vill nefndin bæta þessu við í sambandi við val sýninga á leiklistarhátíðir:
Bráðnauðsynlegt er að skýrari forsendur séu gefnar við val á íslenskum sýningum á hátíð sem þessa. Okkar mat er að sýningar sem eru svo langt yfir tímamörkum sem Rokk er eigi almennt ekki að koma til álita í slíku vali. Valnefndir verða að geta tekið ákvörðun á þeim forsendum sem fyrir liggja en ekki að þurfa að giska á endanlega útkomu.
{mos_fb_discuss:3}