Miðvikudaginn 22.nóvember frumsýna BORGARBÖRN jólaleikritið Réttu leiðina á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Borgarbörn er nýstofnað barna og unglingaleikhús Sönglistar og Borgarleikhússins og það eru hvorki fleiri né færri en 22 börn/unglingar sem taka þátt í hverri sýningu. Þess má geta að í tengslum við sýninguna verður tekið á móti jólapökkum sem Borgarbörn munu afhenda Rauða krossinum, hjálparstofnun kirkjunnar og mæðrastyrksnefnd í desember.

Um er að ræða söngleik þar sem öll hlutverk eru skipuð börnum og unglingum. Krakkarnir hafa numið við söng- og leiklistarskólann Sönglist sem starfræktur er í samstarfi við Borgarleikhúsið. Umrædd sýning verður fyrsta sýning nýstofnaðs barna- og unglingaleikhúss Sönglistar og Borgarleikhússins og er hún sannkölluð fjölskyldusýning.
Leikritið heitir "Rétta leiðin", fjallar um Heiðrúnu Birtu mannabarn sem alist hefur upp í Jólalandi. Hún er send aftur til mannheima ásamt Kuggi jólaálfi til að rétta öðrum hjálparhönd og breiða út boðskap ástar og friðar sem er hinn eini sanni jólaboðskapur. Í mannheimum kynnast þau "Kyrjunum" sem í raun trúa ekki á neitt nema sjálfan sig og engan vegin á jólasveinin. Heiðrúnu Birtu og Kuggi er mikið verk fyrir höndum. Skyldi þeim takast að vekja aftur upp jólaandann? Geta þau sannfært mannfólkið um að með því að rétta öðrum hjálparhönd og láta sig málin varða, eru þau farin að leggja heiminum lið.

Leikarar í hverjum leikhóp eru 22 börn á aldrinum 8-18 ára.
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson.
Leikmynd og búningar: Sigurjón Jóhannsson.
Hljóð: Guðmundur Viðarsson.
Söngstjórn: Ragnheiður Hall.
Tónlistarstjórn: Valdimar Kristjónsson.
Danshöfundar: Halla Ólafsdóttir og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir.
Höfundar: Erla Ruth Harðardóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir.
Leikstjóri: Gunnar Helgason.