Í ár eru liðin 50 ár frá því stjórnmálasamband var tekið upp á milli Japans og Íslands. Af því tilefni verða fjórar japanskar gestasýningar í Þjóðleikhúsinu, tvær í vor og tvær í haust. Fyrsta sýningin verður danssýningin Genji í Kassanum 7. og 8. júní nk. en 25. júní er röðin komin að sýningu ACO Okinawa – Undir sjöstjörnu sem sýnd verður á Stóra sviðinu.
Genji er nútímadansverk sem tengir saman ólík og sígild listform frá Japan, m.a. Noh-formið. Verkið byggir á kafla úr Genji Monogatari, þekktri sígildri japanskri skáldsögu frá 11. öld. Sagan segir frá lífi aðalsmannsins Hikaru Genji. Aoi no ue, eiginkona Hikaru Genji, þjáist af dulinni en heiftarlegri afbrýði í garð ástkonu eiginmanns síns. Afbrýðisemin heltekur líkama Aoi no ue með afar neikvæðum afleiðingum.
Noh er sígilt japanskt sýningarform sem sameinar dans-, leik-, tón- og ljóðlist í eina listgrein. Fjarri tíma og rúmi, býður tómt Noh-sviðið gestum inn í heim ástríðna sem eru tjáðar með nútíma danshreyfingum. Shomyo, búddísk bæn, og Gagaku, forn japönsk hirðtónlist (hvor tveggja frá 9. öld) umlykur þessa tímalausu veröld.
Ryohei Kondo og Sengiku Bando dansa í sýningunni og eru danshöfundar en Sengiku er jafnframt leikstjóri. Tvær sýningar verða í Kassanum í Þjóðleikhúsinu, dagana 7. og 8. júní nk.
25. júní nk. mun ACO Okinawa flytja íslenskum áhorfendum menningararfleifð frá Okinawa í sýningu sem er innblásin af frumkvöðlum þeirra á sviði ferðalaga og viðskipta. Sýningin, Undir sjöstjörnu, verður sýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins.
ACO Okinawa (The Art Community Organization) er sviðlistahópur frá japönsku eyjunni Okinawa sem er betur þekkt sem eyja dansa og söngva. Hópurinn vinnur með einstakar og hrífandi menningarhefðir Okinawa sem eru undir áhrifum frá hafinu og hugmyndum frumbyggjanna, um að Okinawa sé "eyja sem opin er heiminum", sem enn eru haldnar í heiðri meðal eyjaskeggja.
Á heimskortinu er Okinawa bara lítill punktur í Kyrrahafinu. Þessi litla eyja var þó eitt sinn sjálfstætt konungdæmi – Ryukyus konungdæmið. Okinawa blómstraði á þessum tíma og stundaði viðskipti við Japan, Kína, Kóreu og suðaustur-Asíu. Ryukyuan-menningin er friðsamleg og alþjóðleg og litast af áralöngum viðskiptum eyjarinnar við umheiminn sem og ferðalögum.
Skv. hefðinni, eru dans og tónlist frá Ryukyuan, sem flutt er af hópi tónlistarmanna (jikata), leið til að tjá hugsanir og tilfinningar eyjarskeggja. Hljóðfærin í tónlist Okinawa eru af ýmsum uppruna. Þegar þeim er blandað saman verður til sérstakur stíll í tónlist og dansi sem tilheyrir Okinawa.