Leikfélag Dalvíkur
Heima hjá ömmu
Leikstjóri: Aðalsteinn Bergdal

Leikfélag Dalvíkur er eitt af þessum kraftmiklu áhugaleikfélögum sem við höfum hér norðanlands. 25. mars s.l. frumsýndi Leikfélag Dalvíkur Heima hjá ömmu eftir Neil Simon í leikstjórn Aðalsteins Bergdals. Verkið lýsir óvenjulegu heimilishaldi hjá aldraðri þýskri konu og tveimur sonarsonum hennar í New York árið 1942, en hún neyðist til að taka þá í fóstur. Leikritið hefur hlotið fjölda verðlauna þar á meðal Tony-verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin. Júlíus Júlíusson, fyrrverandi formaður LD, fór á sýninguna og hreifst af.

Ég skellti mér með fjölskylduna á sýningu númer tvö. Um leið og við komum inn í salinn fundum við að það var góður andi og eitthvað sérstakt framundan, leikmyndin vönduð og allt vel hugsað og höndunum hvergi til kastað.

Leikarar í Heima hjá ömmu eru sjö talsins, góð blanda af reynsluboltum og nýju ungu hæfileikaríku fólki. Það er alveg ljóst að leikstjórinn Aðalsteinn Bergdal hefur unnið mikla og góða vinnu og náð afar vel til leikaranna og komist í gott samband við verkið. Allt fínpússað og fágað og hann nær að snerta áhorfendur á réttum stöðum jafnt í gleði sem í sorg, stór plús og fullt af stjörnum til leikstjórans.

addiloaLovísa María Sigurgeirsdóttir leikur ömmuna sem ég bæði elskaði og hataði, hún gerir vel og nær með leik sínum að hreyfa við tilfinningum gestanna, oft án orða. Börnin hennar fjögur leika: Arnar Símonarson leikur Eddie, hann skilar sínu hlutverki vel og nær að koma líðan og stöðunni sem Eddie er í mjög vel til skila. Dagbjört Sigurpálsdóttir leikur Bellu sem er þroskaheft, hún fer hreint á kostum í frekar erfiðu hlutverki og magnað að sjá hvernig hún og leikstjórinn hafa náð að tengjast persónunni vel, framlag hennar heitir á góðri íslensku „stórleikur“ Árni Hallur Júlíusson leikur Louie sem er eins og nafnið gefur til kynna „mafíósi“ Árni nær ansi góðum tökum á töffaranum Louie og með yfirveguðum leik sínum fær hann áhorfendur til að trúa öllu sem hann segir. Kristín Svava Stefánsdóttir leikur Gertrud sem hefur yfir nokkrum algjörlega bráðfyndum kækjum að ráða, hún gerir þessari taugaveikluðu dóttur frábær skil með hóflegum en áhrifaríkum leik. Synina leika Dagur Atlason og Kristján Guðmundsson og sýna þeir báðir snilldartakta og frábæran samleik. Það mætti halda að þeir væri fæddir í þessi hlutverk, það var í raun ekki fyrr en eftir sýninguna sem ég áttaði mig hversu vel þeir léku, allt rann svo smurt hjá þeim.

Lýsing Péturs Skarphéðinssonar er fagmannlega gerð og skilar sínu hlutverki, það sama má segja um búninga og aðra baksviðsvinnu, allt vandað, allir búnir að æfa vel og og númer eitt tvö og þrjú allir eru að leggja sig 100% fram og hafa gaman af vinnunni.

Leikritið er afar vel og lipurlega skrifað, textinn skemmtilegur en jafnframt sannur og rennur vel. Það er einmitt á svona stundum þegar vel er gert á öllum sviðum og allt gengur upp sem leikhúsið heillar og gefur sem mest.

Það var mikið hlegið en það komu líka tár í augun á mörgum, og sýningin skilur eitthvað eftir það er ljóst. Þetta er sýning sem ég mæli kinnroðalaust með og nú eiga orðin „ekki missa af“ mjög vel við.

Júlíus Júlíusson

{mos_fb_discuss:2}