Í fyrravetur gekk Hugleikur til samstarfs við Þjóðleikhúskjallarann og sýndi þar sjö sýningar undir nafninu Þetta mánaðarlega. Þar var um að ræða einþáttungasýningar, eitt klukkutímalangt óperuþykkni, eina klukkutíma leiksýningu, auk þess sem margar sýninganna voru kryddaðar með tónlist af ýmsu tagi. Verkefninu lauk síðan í maí með tónlistardagskrá þar sem rifjuð var upp tónlist úr ýmsum verkum Hugleiks. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn með fimm til sex dagskrám í vetur.

naeturst.pngHöfundahópi Hugleiks hefur vaxið fiskur um hrygg að undanförnu. Einn af vaxtarbroddum félagsins hefur verið ritun stuttverka. Uppsetningar stuttverka er leikhúsform sem meira hefur farið fyrir hjá áhugaleikfélögum en öðrum leikhúsum í gegnum árin. Til dæmis hefur lengi tíðkast að halda einþáttungahátíðir í tengslum við aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga. Einnig hefur Bandalagið haldið þrjár stuttverkahátíðir í samstarfi við Borgarleikhúsið undir nafninu Margt smátt. Á slíkri hátíð síðastliðið vor var Hugleikur með þrjú verk og hlutu þau öll viðurkenningar gagnrýnendanna Þorvaldar Þorsteinssonar og Þorsteins Bachmann. Verkið Í öruggum heimi eftir Júlíu Hannam í leikstjórn Kristínar Nönnu Vilhelmsdóttur valið besta sýning hátíðarinnar, Hannyrðir eftir Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Guðmundar Erlingssonar var valið næstbest og Kratavar eftir Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur fékk einnig viðurkenningu. Alls frumsýndi Hugleikur fimmtán stuttverk í Þjóðleikhúskjallaranum í fyrravetur og í ár lítur út fyrir að úr jafnvel meiru verði að moða. Verkin eru af ýmsum toga. Einleikir, gamanleikir, dramatísk verk, raunsæisleg eða ævintýri.

Þetta mánaðarlega í október – Bland í poka
Fyrsta dagskrá vetrarins verður sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum þriðjudaginn 3. október og fimmtudaginn 5. október. Sýningar hefjast klukkan 21.00.
Frumsýnd verða sex stuttverk að þessu sinni:
Ástarævintýr eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, leikstjóri Hrefna Friðriksdóttir
Hver er þessi Benedikt? eftir Júlíu Hannam, leikstjóri Kristín Nanna Vilhelmsdóttir
Munir og minjar eftir Þórunni Guðmundsdóttur, leikstjóri Rúnar Lund
Næturstaður eftir Sigurð H. Pálsson, leikstjóri Árni Friðriksson
Pappírs-Pési eftir Unni Guttormsdóttur, höfundur leikstýrir
Verum í bandi eftir Árna Friðriksson, leikstjóri Sigurður H. Pálsson

Miðaverð er kr. 1.000 og miðapantanasími er 551 2525 eða í netfangi hugleikur@hugleikur.is