Fyrsta verkið sem frumsýnt er á Nýja sviði Borgarleikhússins í ár er verkið Heima er best eftir írska leikskáldið Enda Walsh. Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir verkinu og leikarar eru Þröstur Leó Gunnarsson, Guðjón Davíð Karlsson, Jörundur Ragnarsson og Dóra Jóhannsdóttir. Verkið fjallar um föður sem hefur flúið frá Írlandi með tvo syni sína sem hann hefur lokað  inni í íbúð þeirra í hart nær tvo áratugi.

Þar hefur hann neytt þá til að leika sama leikritið aftur og aftur til að breyta minningum þeirra um óhugnanlega atburði í sögu fjölskyldunnar. Leikritinu leikstýrir faðirinn, sem Þröstur Leó leikur,  með harðri hendi og nýtir hann leikstíl farsans:  Grófur ofleikur, eldsnögg búningaskipti og ógnvænlegur hraði. Þar til einn dag að allt breytist þegar ný persóna skítur óvænt upp kollinum. Verkið er átakanlegt um leið og það er fyndið. En hverjum hlátri fylgir grátur því um leið og maður skellir upp úr hríslast hrollurinn niður bakið.

Á Nýja sviðinu var mörkuð sú stefna á síðasta ári að bjóða upp á ný leikverk sem spyrja áleitinna spurninga og eru ögrandi um leið og þau eru í náinni samræðu við samtímann. Á síðast ári var t.d. sýnt á Nýja sviðinu verkin Rústað, Ökutímar og Þú ert hér og í ár byrjum við á Heima er best. Verkið er átakamikið verk um einangrun, innilokun og þrengsli og hvernig mannskepnan vinnur úr innilokuninni og áföllum sem á hana dynja í vistinni. Sjálfur segir höfundurinn að mannskepnan sé aðeins einu áfalli frá því að verða skrímsli. Þröstur Leó fer með hlutverk föðurins sem hefur í nær tvo áratugi læst syni sína tvo inni í lítilli íbúð í London þar sem hann stjórnar þeim með harðri hendi í örvæntingafullri tilraun til að halda fjölskyldunni saman. Synirnir, Blake og Sean sem þeir Guðjón Davíð og Jörundur leika hafa lært að lifa með harðræðinu en eiga sér samt draum um að komast út.

Það má því lýsa verkinu á eftirfarandi leið: Tveir bræður leika sama leikritið aftur og aftur undir ógnarstjórn föður síns. Innan tveggja tíma hafa þrír menn drukkið sex dósir af bjór, borðað slatta af kexi með smurosti og sporðrennt grilluðum kjúklingi með undarlegri blárri sósu. Innan tveggja klukkutíma munu fimm manneskjur týna lífi. Sumsé. Allt eins og það á að vera. Í íbúð feðganna er raunveruleikinn endurskapaður og settur á svið með aðferðum farsans. Grófur ofleikur, eldsnögg búningaskipti og ógnvænlegur hraði.

Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri er ekki þekktur fyrir að hlífa áhorfandanum og gerir hann það ekki heldur hér. Meðal fyrri uppsetninga hans er Maríubjallan (LA), Herra Kolbert (LA), Vestrið eina (Borgarleikhúsið) og Þú ert hér (Borgarleikhúsið).  Í vetur mun hann vinna verk sem er framhald af Þú ert hér ásamt félögum sínum, Jóni Atla og Halli Ingólfssyni. Það mun nefnast Góðir Íslendingar.

Höfundurinn Enda Walsh (1967) er fæddur í Dublin á Írlandi og hafa verk hans verið sviðsett víða um heim. Tvö leikrita hans hafa verið sýnd hérlendis, Disco Pigs og Misterman. Walsh er höfundur hinnar margverðlaunuðu kvikmyndar Hunger frá 2008.  Heima er best (Walworth Farce) hlaut afbragðs viðtökur þegar það var frumsýnt í National Theatre í London í fyrra.

Sýningartími er snarpur sem er nýtt fyrirkomulag sem kynnt var á síðasa leikári og þýðir að sýning er sýnd oft í viku í fyrirfram ákveðin tíma sem er ekki lengri en 4 vikur í senn.

Þýðandi er Heiðar Sumarliðason, leikmynd og búninga hannar Ilmur Stefánsdóttir, lýsingu Björn Bergsteinn Guðmundsson og um tónlist sér Hallur Ingólfsson.

{mos_fb_discuss:2}