Barnasýningin Horn á Höfði verður sýnd áfram í vor. Til stóð að hætta sýningum um áramót vegna skorts á leikmyndageymsluplássi í Tjarnarbíó – en úr því hefur verið bætt og þessi sívinsæla barnasýning mun því halda áfram fram á vor. Búið er að sýna 60 sýningar allt í allt og á næstu sýningu, þann 26. janúar, verður 7000. gesturinn heiðraður og leystur út með gjöfum.
Sýningin var upphaflega frumsýnd í Grindavík 2009 en hún var valin Barnasýning ársins 2010 á Grímunni og var svo sýnd í Borgarleikhúsinu sama haust. Sýningin hlaut einróma lof en Horn á höfði er fjörleg sýning sem höfðar til ungra sem aldinna.
Björn vaknar einn morguninn með horn á höfðinu. Hann veit ekki af hverju, en veit að hann langar ekki til að líta út eins og geit. Því fær hann Jórunni vinkonu sína til að hjálpa sér við að rannsaka málið. Í leit sinni að sannleikanum upphefst atburðarás á mörkum ævintýris og veruleika. Á vegi þeirra verða kostulegir karakterar, Þórir haustmyrkur, klikkuðu kerlingarnar Þórkatla og Járngerður, og treggáfuðu bófarnir Már og Kári.
Bergur Þór Ingólfsson er leikstjóri verksins og einnig höfundur hennar ásamt Guðmundi Brynjólfssyni. Leikarar eru Víðir Guðmundsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Eva Vala Guðjónsdóttir sér um leikmynd og búninga, Vilhelm Anton Jónsson semur tónlist og Magnús Arnar Sigurðarson.