Föstudaginn 26. september kl. 20.00 verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins verkið Gaukar eftir Huldar Breiðfjörð í leikstjórn Jón Páls Eyjólfssonar. Huldar Breiðfjörð sló í gegn með bók sinni Góðir Íslendingar. Hann er þekktur fyrir næma sýn á mannfólkið og sér í lagi Íslendinga. Huldar nálgast fólk af hlýju en húmorinn er aldrei langt undan. Gaukar er fyrsta leikrit hans.
Gaukar fjallar um sparakstur, skilnaði, Vestfirðinga, dýralíf, smokka með ananasbragði og Vísindakirkjuna.Tómas hittir Gunnlaug á hótelherbergi á landsbyggðinni að vetri til. Gunnlaugur sem er eldri hefur komið sér þar fyrir ásamt gæludýri sem hann hyggst gefa frá sér. Tómas hefur mikinn áhuga á gæludýrinu og er kominn úr borginni til að skoða það. Gunnlaugi er umhugað um að finna góðan eiganda og yfirheyrir Tómas um fjölskylduhagi og reynslu af dýrahaldi. Þegar Gunnlaugur er loks að verða sannfærður um ágæti Tómasar kemur upp ákveðið vandamál sem flestir myndu kalla smáatriði en er þó nógu stórt til að setja fund mannanna í uppnám.
Aðstandendur:
Höfundur: Huldar Breiðfjörð | Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson | Leikmynd og Búningar: Brynja Björnsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Tónlist: Úlfur Eldjárn | Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen | Leikarar: Jóhann Sigurðarson og Hilmar Guðjónsson.