Sveinsstykki fjallar um reglumanninn, íslenskumanninnn og lagerstarfsmanninn Svein Kristinsson sem á bæði stórafmæli og starfsafmæli og fagnar þessum tímamótum með því að bjóða til veislu. Hann er að halda upp á það að hafa alla sína ævi aldrei gert annað en það sem rétt getur talist. En fyrst allt lítur svona vel út, hvernig stendur þá á því að líf þessa blíða, greinda og framsýna manns er rjúkandi rúst?
„Þegar við fórum að leiða hugann að því marka þessi tímamót, þá varð okkur hugsað til vinar okkar Þorvaldar Þorsteinssonar og hans magnaða verks, Sveinsstykki.“ segir Þórhildur.
Sveinsstykki skrifaði Þorvaldur gagngert fyrir Arnar fyrir 10 árum síðan í tilefni 40 ára leikafmælis Arnars.
„Það var engin spurning í okkar huga að um leið og ég kveð Þjóðleikhúsið, sem hefur verið mitt annað heimili í 50 ár, væri vel við hæfi að nota það tilefni til að heimsækja þetta magnaða verk að nýju og að heiðra minningu kærs vinar og mikils listamanns.“
Takmarkaður sýningarfjöldi verður á Sveinsstykki og er áhugafólk um leiklist hvatt til að tryggja sér miða og láta þennan merka leiklistarviðburð ekki fram hjá sér fara.