Á Sauðárkróki hafa menn fundið sér áhugamál þar sem fjölskyldan vinnur saman að uppbyggilegum verkefnum. Þetta áhugamál er leiklistin. Hvort sem um tilviljun er að ræða eða ekki, þá vill svo skemmtilega til að um þessar mundir eru bræður og systur, mæðgin og feðgin, mæðgur og feðgar að setja upp söngleikinn Fólkið í blokkinni með Leikfélagi Sauðárkróks. Þau eru reyndar ekki alveg ein því um 40 manns hamast við að koma verkinu á koppinn undir leikstjórn Jóns Stefáns Kristjánssonar svo allt verði tilbúið fyrir frumsýningu sunnudaginn 25. apríl.
Ekki eru nema 2 ár síðan söngleikurinn Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson var frumsýndur í Borgarleikhúsinu við góðar undirtektir. Hér á Króknum er það Jón Stefán Kristjánsson sem leikstýrir vöskum hópi leikenda en alls koma um 40 manns að sýningunni, bæði mikið reyndir, minna reyndir og allendis óreyndir. Eins og nafnið bendir til fjallar Fólkið í blokkinni um fólk í ósköp venjulegri blokk. Þar má sjá hljómsveit í kjallaranum og allskonar fólk, reyndar ekki útrásarvíkinga eða bankastjóra heldur ástfangna karla og reiðar konur – eða nei annars, voru það ástfangnar konur og reiðir karlar? Í blokkinni býr líka hann Óli, stráklingur sem hefur sinn eigin skilning á því sem fram fer í kringum hann.
Framkvæmdastjóri sýningarinnar er Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, Rögnvaldur Valbergsson stýrir tónlistinni, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson hannaði lýsingu, leikmunir og búningar eru undir stjórn Jónu Hjaltadóttur og sviðsmynd hannaði Jón Stefán. Sýningarstjóri er Ásdís Sif Þórarinsdóttir.
Frumsýning er sunnudaginn 25. apríl kl. 20:30, miðasala er í Kompunni og í síma 849-9434.
Aðrar sýningar verða sem hér segir:
2. sýning þri. 27. apríl kl. 20:30
3. sýning fim. 29. apríl kl. 20:30
4. sýning lau. 1. maí kl. 17:00
5. sýning sun. 2. maí kl. 20:30
6. sýning þri. 4. maí kl. 20:30
7. sýning miðv. 5. maí kl. 20:30
Lokasýning lau. 8. maí kl. 17:00
Sjá einnig á heimasíðu Leikfélags Sauðárkróks www.skagafjordur.net/ls
{mos_fb_discuss:2}