Mikið verður um að vera hjá Leikfélagi Akureyrar í desember, tvö jólaleikrit verða á fjölum þess auk þess sem leikfélagið stendur fyrir leiklestri í samvinnu við Akureyrarakademíuna og Minjasafn Akureyrar og hefur hann hlotið nafnið Upprisa hinna nafnlausu. Jólaleikritin eru Ef ég væri jólasveinn… og Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson.

Ef ég væri jólasveinn… var frumsýnt síðastliðin sunnudag og skilaði brosandi og sönglandi leikhúsgestum á öllum aldri út í vetrarmyrkrið. Einungis eru fjórar sýningar eftir af þessarri íslensku frumsköpun: sunnudaginn 2. desember kl. 14.00 og 16.00 og sunnudaginn 9. desember kl. 14.00 og 16.00. Verkið hentar jólabörnum á aldrinum 4 -104 ára, er 50 mínútur án hlés. Jólaverk með söngvum fyrir börn á öllum aldri.

Leikhópurinn Á Senunni mun færa okkur hina heillandi sýningu Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson laugardaginn 15. desember. Tvær sýningar verða þennan dag kl. 13.00 og 15.00. Verkið er ætlað börnum 2ja-10 ára, tekur um eina klukkustund í sýningu og er ekkert hlé.

Upprisa hinna nafnlausu, leiklesinn alþýðufyrirlestur í Samkomuhúsinu. Þann 6. desember mun Akureyrarakademían, í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og Minjasafn Akureyrar, flytja alþýðufyrirlestur með leikrænu ívafi. Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur, mun beina kastljósinu að kjörum alþýðukvenna á Íslandi í byrjun 20. aldar, með aðstoð leikara LA. Aðgangseyrir er aðeins 2000 krónur og rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.

Allar nánari upplýsingar í síma 4 600 200, leikfelag.is og á netfanginu midasala@leikfelag.is.