Fátæka leikhúsið frumsýnir, sunnudagskvöldið 14.ágúst Kl. 20.00, leikritið Rósinkrans og Gullinstjarna eru dauðir eftir Tom Stoppard. Snorri Hergill Kristjánsson þýddi verkið. Leikstjóri er Karl Ágúst Þorbergsson og er þetta hans fyrsta leikstjórnarverkefni.
Leikurinn gerist í hliðarvængjum Hamlets á Helsingjaeyri. Rósi og Gulli hafa verið boðaðir af Kládíusi til að komast að hvað hrjáir unga prinsinn en heldur eru þeir félagar áttavilltir. Á vegi þeirra verður leikhópur undir forystu stórfurðulegs stórleikara sem”vísar þeim veginn”. Stoppard veltir hér upp spurningum um tilvist og tilgang mannsins og leikhússins.
Með hlutverk hinna áttavilltu félaga fara Hannes Óli Ágústsson og Friðgeir Einarsson en með hlutverk leikarans fer Snorri Hergill. Önnur hlutverk eru í höndum Hinriks Þórs Svavarssonar, Bjarts Guðmundssonar, Ástbjargar Rutar Jónsdóttur, Þorbjargar Helgu Dýrfjörð, Atla Sigurjónssonar, Jóns Stefáns Kristjánssonar, Halldórs Marteinssonar, Hjalta Kristjánssonar og Leifs Þorvaldssonar.
Sýningar eru í húsnæði Stúdentaleikhússins í Tónlistarþróunarmiðstöðinni að Hólmaslóð 2.
Fátæka leikhúsið er nýr leikhópur sem sprettur upp sem sumarverkefni nokkurra aðila úr stúdentaleikhúsinu og eins og nafnið gefur til kynna er um einstaklega fátækan hóp að ræða. Engir styrkir eru á bak við verkefnið og er stefnuskráin einföld, að búa til leikhús fyrir ekkert og setja upp einstaklega hráar sýningar í nánast berstrípuðu umhverfi. Engu hefur verið kostað til að setja upp þessa sýningu.
Sýningar verða:
Sunnudag 14. ágúst kl. 20.00
Fimmtudag 18. ágúst kl. 20.00
Föstudag 19. ágúst kl. 20.00
Sunnudag 21. ágúst kl. 20.00
Athugið að aðeins verða sýndar þessar 4 sýningar
Miðapantanir eru í síma 6965807 og 6618678 og miðaverð eru kr. 500,-