Föstudaginn 3. febrúar kl. 21.00 verður uppistandssýningin Uppnám sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins. Það sem upphaflega átti að vera sýningar í Leikhúskjallaranum varð að þrettán og nú er ætlunin að ljúka þessu með pompi og pragt á stóra sviðinu. Í uppnámi koma annars vegar fram Pörupiltar og hins vegar Viggó og Víóletta.

Uppnámið hefst á framlagi Pörupilta, þeirra Dóra Maack, Nonna Bö og Hermanns Gunnarssonar. Þeir eru harðir í horn að taka en engu að síður óhræddir við að takast á við stórar spurningar um ástir og örlög og tilgang lífsins. Frumsamin ljóð, óskiljanleg töfrabrögð, þrælæfð dansatriði, ástir og örlög, æðruleysi, atvinnuleysi, umbreyting, pjásur og pælingar, tilgangur lífsins, tilvistarkreppa mannsins, taktföst tónlist, heimspeki, heilabrot og daður dauðans!Hlutverk Pörupilta er í höndum Sólveigar Guðmundsdóttur, Alexíu Bjargar Jóhannesdóttur og Maríu Pálsdóttur.

Viggó og Víóletta taka við eftir hlé með Sjálfshálparsöngleikinn sem er kvöldskemmtun sem enginn mun ganga ósnortinn út af. Viggó og Víóletta taka fyrir viðkvæm málefni eins og fordóma, útlendingahatur, kynþáttafordóma, hómófóbíu og meðvirkni og fleiru krúttlegu sem best er að sópa undir teppið. Þau eru óhrædd við að takast á við skugga samfélagsins þó svo að gagnrýnisraddir hafi sagt að þau sjálf séu haldin umræddum fordómum. Með gleðina að leiðarljósi kenna þau áhorfendum hvernig á að lifa lífinu á farsælan og hamingjuríkan hátt í söng, leik og dansi. Svo syngja þau og brosa út í eitt. Það eru þau Bjarni Snæbjörnsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir sem leika Viggó og Víólettu.

{mos_fb_discuss:2}