Hvalur hefur tekið sér bólfestu í húsi við höfnina. Hann tælir til sín gesti og gangandi með seiðandi söng sínum. Risakræklingur er bundinn við bryggju – fljótandi hljóðfæri liggur við höfnina. Þegar komið er inn í gin hvalsins hefst andlegt ferðalag, sem er lyginni líkast. Þetta ferðalag í gegnum iður hvalsins er þekkt minni í trúarbrögðum, skáldsögum og þjóðsögum þessara landa. Líkt og Jónas í hvalnum og Gosi forðum daga, mæta áhorfendur aðstæðum og Fantöstum sem hjálpar þeim að sjá lífið og sjálft sig í nýju ljósi.
Lygin er ekki andstæða sannleikans heldur hluti af honum. (Gusta Aagren)Fantastar þýðir á íslensku athafnaskáld eða þeir sem lifa jafnt í fantasíu og raunveruleika. Fantastinn á rætur sínar að rekja til Íslands, Grænlands og Færeyja og glæðir líf samferðamanna sinna með góðum sögum og draumum og einstakri vitleysu.
Sagðar eru sögur af Fantöstum eyjanna þriggja, þeir verða kynntir til leiks og staða þeirra í dag verður krufin af sjáendum.
Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona hefur forystu fyrir hópi listamanna frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og Danmörku sem vinna saman að þessum listviðburði sem byggir á hugmyndum og ranghugmyndum þjóðanna og misskilinni sjálfsmynd þeirra. Sögur verða endursagðar og heimildir skáldaðar.
Sýningin er frumsýnd 22. mai kl. 21 og er hluti af Listahátíð í Reykjavík og framleidd í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Sýnt er í Brim húsinu við Geirsgötu. Sýningum lýkur 5. júní og nánari upplýsingar um miðasölu, sýningardaga og miðaverð er á www.listahatid.is/fantastar
Sýningin mun ekki eingöngu vera inni í Brim húsinu því á næstu dögum verður sjósettur risa Kræklingur í höfninni hjá Brimhúsinu en hann er hluti af sýningunni.
Nánar: http://nordpa.blogspot.com/