Höfundur: Örn Alexandersson
Leikstjórn: Sigrún Tryggvadóttir

Fyrir nokkru síðan setti Leikfélag Kópavogs upp sýninguna Snertu mig – ekki! við fádæma jákvæðar undirtektir áhorfenda. Sú sýning var aðeins um klukkustund að lengd og vildu margir vita meira um afdrif persónanna í verkinu. Aðstandendur verksins urðu við þeirri bón og bættu um klukkustund við verkið svo úr varð sýning í fullri lengd. Undirritaður fór á þá sýningu og ber hún heitið: Snertu mig ekki! Snertu mig.
Sagan segir frá þremur einstaklingum, hjónunum Karli og Margréti, sem eru leikin af Arnfinni Daníelssyni og Guðnýju Hrönn Sigmundsdóttur, og Nínu vinkonu þeirra sem Halldóra Harðardóttir blés lífi í. Hjónin ganga ekki í takt þegar kemur að samlífinu. Lífið virðist hafa þvælst fyrir þeim og slegið út af borðinu allar tilraunir til „turtildúfudúllerís“ og nú er svo komið að Karl getur ekki hleypt folanum á brokk, því honum rís ekki hold. Þetta fælir hann frá konu sinni svo mikið að jafnvel léttar snertingar vekja hjá honum ótta. Nína situr á kantinum sem traust uppspretta misskilnings og vafasamra hugmynda sem hún finnur á botni vínflaska, en þær tæmast hratt í návist hennar. Hvort og hvernig hjúin leysa úr sínum málum er svo það sem leikritið snýst um. Þetta er dramatískt verk með kómískum undirtón.
Allir leikarar stóðu sig einstaklega vel. Samtölin voru einlæg og náttúruleg. Ásetningur var greinilegur og trúverðugur svo persónurnar lifnuðu við í höndum þeirra. Undirrituðum fannst Arnfinnur bera af öðrum. Þá sérstaklega hvernig hann fyllti persónu sína af sjálfstrausti í seinni hluta verksins ásamt því að halda í persónueinkenni. Leikarar stóðu sig almennt betur fyrir hlé. Eftir hlé var takturinn og tengingar á milli persóna aðeins síðri. Kannski er það eðlilegt því leikarar höfðu meiri tíma til að slípa til fyrri helminginn.
Sviðsmynd var einföld en eðlileg. Engir óþarfa hlutir og uppstilling skýr. Húsgögn tilgreindu hvert rými fyrir sig sem kom vel út og var aldrei vafi á því hvar leikarar voru og hvert þeir stefndu. Úr varð eðlilegt flæði í abstrakt rými. Lýsing og hljóð var gott. Það bar lítið á því. Sem er vísir að góðri vinnu í þeim deildum. Eiga Skúli Rúnar Hilmarsson lýsingahönnuður og Hörður Sigurðarson hljóðmyndahönnuður hrós skilið.
Handritið er gott. Örn Alexandersson skrifar eðlileg samtöl sem eru góður grunnur fyrir leikara. Þar af leiðandi upplifir maður líf þriggja manneskja, örlítið eins og í raunveruleikaþáttum. Maður þekkir persónurnar vel og er spenntur að sjá hvernig þær bregðast hver við annarri. Ástæðan fyrir brestum í samskiptunum skiptir þá minna máli. Það var jafn áhugavert að sjá Margréti pirraða því Karl mundi ekki að hún vill mjólk í kaffið og öfgakennd viðbrögð Karls við snertingum Margrétar. Þetta er lífið þeirra, svo raunverulegt að mann langar í meira. Spurningin er ekki „hvað gerist næst?“ heldur „má ég hanga með ykkur aðeins lengur sem fluga á vegg?“ Þar af leiðandi stakk endirinn í stúf við verkið sjálft. Því þá kom í ljós að það var leyndarmál í verkinu, eitthvað sem við áttum að reyna að finna. Allt í einu var spurningin orðin: „hvað gerist næst?“ Þetta er samt sem áður hnökri í verkinu sem er sýnilegur einungis vegna þess hversu vel það er skrifað. Til að mynda voru ljóðræn innskot á milli sena einstaklega falleg.
Upplifun mín á verkinu var einlæg og ég hef sjaldan séð áhugaleiksýningu sem nær slíkri tengingu við áhorfendur. Hún fór hægt af stað, jafnvel of hægt, en greip mann rólega og dró með sér í raunir Karls, Margrétar og Nínu. Sýningin náði ekki sömu hæðum eftir hlé en var samt sem áður hugljúf og áhugaverð. Gott dramatískt verk með skoplegum undirtón.

Hörður S Dan