Leikfélag Hörgdæla á Melum æfir nú söngleikinn Epli og eikur sem frumsýndur verður þann 27. febrúar. Söngleikurinn er skrifaður af Þórunni Guðmundsdóttur og var það fyrst sýnt af leikfélaginu Hugleik í Reykjavík árið 2007.
Söngleikurinn Epli og Eikur fjallar um óhefðbundin ástarsambönd og glæpsamleg áhugamál nokkurra einstaklinga sem fléttast saman í sprenghlægilegan og flókinn eltingaleik. Leikstjóri sýningarinnar er Jenný Lára Arnórsdóttir.
Leikfélag Hörgdæla er virkt áhugafélag í Hörgársveit sem hefur sett upp sýningar á Melum frá árinu 1928, en það var ekki fyrr en árið 1997 sem leikfélagið var formlega stofnað.
Frumsýning er fimmtudaginn 27. febrúar en sýnt verður föstudaga og laugardaga að Melum fram í apríl. Lokasýning er áætluð 26. apríl. Þá verður sýnt um páskana, á Skírdag fimmtudaginn 17. apríl, Föstudaginn langa 18. apríl og laugardaginn 19. apríl.