Gífurlegur fjöldi umsókna barst í Leikritunarsjóðinn Prologos að þessu sinni, en alls bárust 65 umsóknir frá 59 aðilum, og hafa umsóknir í sjóðinn aldrei verið fleiri. Nú er úthlutað úr sjóðnum í sjötta sinn, og hljóta tveir höfundar handritsstyrki og þrír aðilar styrki vegna leiksmiðjuverkefna. Leikritunarsjóðurinn Prologos, sem hefur starfað við Þjóðleikhúsið frá því í júní árið 2008, vinnur að því að efla íslenska leikritun og nýsköpun í sviðslistum með styrkveitingum til listamanna og öðrum verkefnum.

Annað leikskáldanna sem hlaut styrk að þessu sinni, Sigurður Pálsson sem hlaut styrk til að skrifa leikritið Segulsvið, er eitt af okkar þekktustu og reyndustu leikskáldum. Friðgeir Einarsson, sem hlaut styrk til að skrifa leikritið Hreindýr, er hinsvegar upprennandi leikhúsmaður, sem lauk prófi frá leiklistardeild LHÍ – fræði og framkvæmd fyrir tveimur árum, og hefur getið sér gott orð fyrir starf með ýmsum leikhópum.

Gísli Örn Garðarsson hlaut styrk til að vinna leiksýningu upp úr íslenskri goðafræði sem ber vinnuheitið Goðin. Leikhópurinn Bakaríð hlaut styrk til að vinna að sviðslistaverkefninu Hlustað á efnið, þar sem rannsakaðir eru möguleikar myndræns leikhúss, brúðuleikhúss og hlutaleikhúss. Hópinn skipa þau Eva Signý Berger, Helga Arnalds, Högni Sigurþórsson, Karolina Boguslawska, Katerina Fojtikova, Rene Baker og Sigríður Sunna Reynisdóttir. Leifur Þór Þorvaldsson hlaut styrk til að vinna danssýninguna Ubermarionettes, þar sem unnið er með takt og hreyfimynstur dansara á nýstárlegan hátt.

Prologos hefur á starfstíma sínum veitt alls sextán handritsstyrki og styrkt fjórtán leiksmiðjuverkefni. Nú þegar hafa alls níu þessara verkefna verið sýnd eða sett á verkefnaskrá leikhúsa og dansflokka, og hafa sum þeirra verið sýnd á leiklistar- og danshátíðum. Prologos hefur einnig styrkt leikritaútgáfu og kynningu á íslenskum leikritum á erlendri grundu. Umsóknum í sjóðinn hefur stöðugt fjölgað, eða úr 24 í upphafi til 65 umsókna nú, en alls hafa 280 umsóknir um handrits- og leiksmiðjustyrki borist Prologos frá upphafi. Sá fjöldi spennandi umsókna sem berst Prologos er órækur vitnisburður um þann mikla frumkraft sem býr í íslensku sviðslistafólki um þessar mundir, og þörf fyrir fjármagn í sviðslistageiranum er mikil.

Prologos starfar við Þjóðleikhúsið og leikhúsið veitir styrkhöfum Prologos stuðning með ýmsum hætti, býður þeim listræna ráðgjöf, aðstöðu og samvinnu við listafólk hússins. Að endingu getur Þjóðleikhúsið hugsanlega orðið sýningarstaður verkefna. Nokkur verkefni hafa þegar komist á dagskrá leikhússins og fleiri eru í undirbúningi.

{mos_fb_discuss:3}