Brynhildur Guðjónsdóttir mun túlka Edith Piaf, eina frægustu söngkonu heims, í 80. skipti á föstudagskvöld. Nú fer hver að verða síðastur til að sjá þessa frábæru sýningu.
Brynhildur "Piaf" Guðjónsdóttir hefur heillað landann með ógleymanlegri túlkun sinni á Edith Piaf, einhverri eftirminnilegustu rödd síðustu aldar, en fyrir hana hlaut Brynhildur Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki. Sýning Þjóðleikhússins á Edith Piaf eftir Sigurð Pálsson hefur gengið fyrir fullu húsi í á þriðja leikár og á föstudagskvöldið er 80. sýning.
Piaf var goðsögn í lifanda lífi. Lífshlaup hennar var einstakt; hún ólst upp meðal vændiskvenna og bófa í skuggahverfum Parísarborgar en með rödd sinni og einstakri túlkun komst hún upp á svið helstu hljómleikahúsa heims. Við kynnumst konu sem aldrei afneitaði neinu og allra síst fortíð sinni og uppruna, hvað þá ástarsamböndum sínum.
Brynhildur Guðjónsdóttir fer sem fyrr segir með titilhlutverkið en með önnur hlutverk fara Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Kjartan Guðjónsson, Pálmi Gestsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir.
Tónlistarstjóri er Jóhann G. Jóhannsson en hann hlaut Grímuna – Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistina í sýningunni. Fimm manna hljómsveit er í verkinu. Hana skipa auk Jóhanns (píanó), Birgir Bragason á kontrabassa, Hjörleifur Valsson á fiðlu, Jóel Pálsson á tenór saxófón og klarinett og Tatu Kantomaa á harmónikku. Höfundur hreyfinga og dansa er Sveinbjörg Þórhallsdóttir og dansari er Cameron Corbet. Lýsing er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar, búninga gerir Þórunn María Jónsdóttir, höfundur leikmyndar er Vytautas Narbutas og leikstjóri Hilmar Jónsson.