Næstkomandi laugardag, 22. mars mætir Aladdín aftur galvaskur ásamt Salímu vinkonu sinni og fleiri furðufuglum á Brúðuloftið í Þjóðleikhúsinu til að skemmta fólki frá 5 ára upp í 105 ára. Hætta þurfti sýningum fyrir jól fyrir fullu húsi og nú fá þeir sem misstu af sýningunni í haust tækifæri til að berja þennan undraheim augum. Sýningin um Aladdín hefur hlotið frábæra dóma leiklistargagnrýnenda og góðar viðtökur áhorfenda. Bernd Ogrodnik brúðulistamaður er nýkominn heim úr langri sýningarferð og hefur nú aftur tækifæri til að sýna Aladdín í nokkur skipti áður en haldið verður á ný út í hinn stóra heim.

Brúðuheimar, í samvinnu við Þjóðleikhúsið, frumsýndu vígslusýningu Brúðuloftsins, Aladdín sunnudaginn 6. október, í aðalbyggingu Þjóðleikhússins. Bernd Ogrodnik brúðulistamaður hefur unnið um 40 brúður fyrir þessa sýningu af sínu alkunna listfengi, af öllum stærðum og gerðum. Flestar brúðurnar eru þó svokallaðar strengjabrúður og eru þær nær allar tálgaðar út úr tré. Sýningin er veisla fyrir hjartað, eyrun og augun og mun gleðja áhorfendur á öllum aldri. Aladdín var sýnd á Brúðuloftinu fram í lok nóvember en þá þurfti að hætta sýningum vegna leikferðar Brúðuheima til Aruba. Missið ekki af þessari perlu!!

Um sýninguna:
Við leggjum upp í dularfullt ferðalag til Mið-Austurlanda, allt til hinnar fornu borgar Bagdad, inn í heillandi heim, sem býr yfir ríkulegum menningarverðmætum. Við ferðumst með Aladdín á töfrateppinu til hinnar fornu Babýlóníu. Leikmyndin er einnig stórbrotin og mikil völundarsmíð. Leikið er á 6 senum og er ásýnd sýningarinnar ægifögur.

Bernd hefur verið að safna að sér efni í þessa sýningu allt frá því að Brúðuheimar fóru í leikferð til Jerúsalem sumarið 2011 og leitaði Bernd víða fanga. „Ég hef aldrei orðið jafn heillaður, auðmjúkur og orðið fyrir jafnmiklum áhrifum, þar sem ég ýmist táraðist af gleði eða sorg, eins og í undirbúningsvinnu minni fyrir sýninguna. Ég leitaði fanga víða til að leggja mig eftir að skilja betur menningu, arkitektúr og tónlist Mið-Austurlanda. Eitthvað töfrandi gerist þegar við förum að þekkja og skilja, það sem við áður álitum skrítið og öðruvísi. Við hræðumst og dæmum auðveldlega það sem við ekki þekkjum, en hjartað opnast hratt upp á gátt þegar við fáum tækifæri á að hlusta í einlægni á hjartslátt okkar meðbræðra.“

Handrit, tónlist, leikmynd, brúðugerð og flutningur: Bernd Ogrodnik
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson

„Töfrar á heimsmælikvarða“ SBH – Morgunblaðið
“Undurfalleg brúðuleiksýning“ JVJ – Fréttablaðið
„Fagrir galdrar“ GSE – Fréttatíminn
“Algjört augnakonfekt.“ SA – TMM