Föstudaginn 4. desember verður bein útsending úr Borgarleikhúsinu frá söfnunarþætti í tilefni af degi rauða nefsins og verður þátturinn í opinni dagskrá Stöðvar 2. Dagskráin er sneisafull af spennandi atriðum og munu fjölmargir listamenn leggja góðu málefni lið með kímni sem opnar hug okkar fyrir fallegum skilaboðum. Listamenn Borgarleikhússins vera í broddifylkingar og mörg skemmtileg brot úr verkum hússins verða sýnd.
Dagur rauða nefsins er alþjóðlegur söfnunardagur fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og verður nú haldinn í þriðja sinn hér á landi. Eins og landsmenn þekkja orðið er hægt að leggja málefninu lið með því að festa kaup á rauðum nefjum eða gerast heimsforeldri. Hugmyndin á bak við rauðu nefin er að gleðja sig og aðra. Hvað er því ánægjulegra í aðdraganda jólanna en að styrkja gott málefni og gleðjast.
Nánari upplýsingar um söfnunina er hægt að nálgast á vef samtakanna www.unicef.is