Meistarinn og Margaríta
Ég fór að sjá Meistarann og Margarítu um helgina. Mér hefur þótt þessi saga spennandi sem sviðsverkefni síðan ég las hana (sem var reyndar fyrir einhverjum 10 árum síðan) og þótti gaman að sjá að menn væru að ráðast í það verkefni hér. Ýmislegt í sýningunni þótti mér gott, annað slæmt, eins og gengur. Leikmyndin og skipulagningin á rýminu þótti mér flott. Mínímalísk leikmyndin gekk vel upp í skemmtilegu samspili við lýsingu. Sýningin var framin ofan í „skurði“ þar sem áhorfendur sátu beggja vegna, skemmtileg notkun á rýminu. Sami mínímalismi var hins vegar ekki í gangi þegar kom að búningum. Það var mikið um skrípalæti og „stæla“ í búningum og gerfum sem virtust ekki þjóna neinum tilgangi öðrum en þeim að undirstrika kaósið í sögunni. Þetta gerði það t.d. að verkum að enginn sjáanlegur munur var á venjulegu fólki og yfirnáttúrulegum verum og ég hefði ekki vitað að kötturinn átti að vera köttur nema vegna þess að ég hafði lesið bókina. Þetta þótti mér mjög miður og skemmdi sýninguna frekar en að bæta nokkru við. Á köflum bættist síðan við trúðslegur leikstíll, einkum hjá aukapersónum í fjölmennari atriðum. Aftur, undirstrikaði glundroðann í sögunni, málið er bara að sagan er glundroðakennd. Ég held hins vegar að sagan sjálf gefi hann alveg fullt til kynna, hvaða leið sem farin er í handritsgerð og óþarfi að mata áhorfandann á því með teskeið....
Sjá meira


