Á haustfundi Bandalags íslenskra leikfélaga var samþykkt ályktun til að mótmæla þeim gríðarlega niðurskurði sem áhugaleikfélög verða fyrir á fjárlögum næsta árs. Það kom áhugaleikfélögunum á Íslandi auðvitað ekkert á óvart að framlög til starfseminnar yrðu skorin niður á næsta ári. Við núverandi aðstæður er annað nánast óhugsandi. Það kom á hinn bóginn mjög á óvart hvað fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir miklum niðurskurði. En þó einkum að niðurskurður til þessarar starfsemi er miklum mun meiri en til annarrar liststarfsemi.
Ályktunin er svohljóðandi:
Bandalag íslenskra leikfélaga mótmælir fyrirhuguðum stórfelldum niðurskurði á framlögum til starfsemi áhugaleikfélaga. Niðurskurður á styrkjum til menningar og lista er skiljanlegur í ljósi núverandi efnahagsástands. Áhugaleikfélögin hafa því eins og aðrir verið því viðbúin að þurfa að taka á sig auknar byrðar. Bandalagið lýsir hinsvegar yfir furðu og óánægju með að fyrirhugaður niðurskurður á framlagi til starfsemi leikfélaganna nemi rúmlega 50% sem er langt umfram þau u.þ.b. 20% að meðaltali sem ætlunin er að skera niður framlög til liststarfsemi almennt. Leikfélögin í landinu eru tilbúin að leggja sitt af mörkum, til jafns við aðra. Bandalagið skorar á Alþingi að endurskoða þennan gríðarlega niðurskurð sem mun nánast lama alla hefðbundna starfsemi leikfélaganna í landinu.
Sé fjárlagaliðurinn „Listir, framlög“ skoðaður þá er meðalniðurskurður frá fjárlögum 2009 um 20%. Þarna eru m.a. framlög til starfsemi atvinnuleikhópa (14,9% niðurskurður), Íslensku óperunnar (20%) og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar (7,9%)
Niðurskurður á framlögum til áhugaleikfélaganna er hins vegar 57%, úr 25,9 milljónum í 11,4, og og til þjónustumiðstöðvar Bandalags íslenskra leikfélaga um 46%, úr 7,5 milljónum í sléttar fjórar.
Ljóst er margir af mikilsverðum þáttum í þessu starfi munu ekki þola þessa róttæku lækkun, nái tillagan fram að ganga óbreytt. Einnig þykir stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga og forsvarsmönnum áhugaleikfélaganna óréttlátt að þurfa að þola svo mikið mun meiri niðurskurð en aðrir sem starfa í sama geira.
Styrkir til leikfélaganna
Framlagi ríkisins til leikfélaganna sextíu og tveggja sem núna starfa á landinu er deilt út til samræmis við umfang starfsemi hvers og eins. Á síðasta ári þýddi þetta að styrkur vegna uppfærslu sýningar í fullri lengd um 380.000 krónum. Ef niðurskurðurinn nær fram að ganga mun samsvarandi tala fara í um 180.000 kr. Erfitt er að sjá að leikfélögin sjái sér fært að setja upp sýningar á þessum forsendum.
Þjónustumiðstöð leiklistarinnar
Bandalag íslenskra leikfélaga rekur þjónustumiðstöð í Reykjavík. Þar er langstærsta safn íslenskra leikrita sem til er, þar er eina sérverslun landsins með leikhúsfarða og brelluvörur á borð við gerfiblóð, þar er veitt ráðgjöf um hvað eina sem snýr að leikhúsvinnu. Miðstöðin þjónar allri leiklist í landinu. Þangað snúa sér skólar frá leikskólum og upp í framhaldsskóla til að fá vörur og ráðleggingar. Þar kaupa bæjarhátíðir og aðrir aðilar andlitsmálningu fyrir börnin. Þar kaupa björgunarsveitir vörur þegar þarf að halda æfingar. Þangað leita þátttakendur Gay Pride. Og þar koma allir sem þurfa af einhverjum ástæðum að nálgast handrit að óprentuðum leikritum; leikfélög, atvinnuleikhópar, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, háskólanemar.
Við miðstöðina starfa nú tveir starfsmenn sem skipta á milli sín einu og hálfu stöðugildi. 46% niðurskurður myndi þýða það umtalsverðan samdrátt á þessu að ógjörningur yrði að halda miðstöðinni opinni allt árið.
Atvinnuskapandi starfsemi
Áhugaleikfélögin í landinu eru einn stærsti vinnuveitandi atvinnuleikstjóra í landinu og leikstjóralaun eru í flestum tilfellum stærsti útgjaldaliðurinn við uppfærslu leiksýningar. Niðurskurðurinn mun því ljóslega valda miklum samdrætti í atvinnumöguleikum íslenskra leikstjóra, auk þess að draga stórlega úr framboði á leiklist á landinu.
Menningarhlutverk á landsbyggðinni
Íslensk áhugaleikfélög starfa í flestum stærri þéttbýliskjörnum landsins og einnig í ýmsum hinna smærri og í dreifðari byggðum víða um land. Starfemi þessara félaga er víða kjarninn í menningarstarfsemi héraðsins og eini þægilegi aðgangur íbúanna að lifandi leiklist. Stórfelldur samdráttur í starfseminni mun hafa í för með sér samsvarandi lífsgæðarýrnum á slíkum stöðum.
Barna- og unglingastarf
Leikfélögin í landinu sinna leiklistaruppeldi af miklum metnaði. Víða eru starfandi unglingadeildir, námskeið fyrir börn eru fastur liður á verkefnaskrá margra félaga, auk þess sem kynslóðirnar koma saman við uppfærslu leikrita og skila þannig öllum aldurshópum ómetanlegri lífreynslu og þroskatækifæri. Einnig þessi starfsemi mun hverfa eða minnka stórlega.
Ályktunin lýsir afstöðu áhugaleikhússfólks. Afleiðingar af samþykkt óbreyttrar fjárlagatillögu yrði reiðarslag fyrir þessa starfsemi, og yrði hálfu sárari fyrir það að vera svo langt yfir því sem öðrum er gert að þola.