ImageFimmtudaginn 16. febrúar verður leikritið Maríubjallan frumsýnt í Rýminu, nýju leikhúsi Leikfélags Akureyrar. Maríubjallan er kraftmikið og magnað nútímaverk eftir Vassily Sigarev. Leikritið er sýnt í Rýminu sem er nýtt leikhús Leikfélags Akureyrar sem kemur til viðbótar við starfsemi leikhússins í Samkomuhúsinu.  Rýmið, sem er til húsa að Hafnarstræti 73, er svartur kassi og þar er hægt að staðsetja uppsetningar á ólíka vegu.
 

Dima er 19 ára. Hann býr í blokk við hliðina á kirkjugarðinum, þaðan sem hann stelur legsteinum og selur. Á morgun hefur hann herþjónustu en í kvöld heldur hann vinum sínum kveðjupartý. Þangað koma vinir hans Slavik og Arkasha auk stúlknanna Leru og Júlkua. Á einu kvöldi fáum við magnaða innsýn í líf persónanna, kynnumst sorgum þeirra og þrám. Í ömurlegum aðstæðum er að finna allt litróf mannlegra tilfinninga og hver um sig hefur fundið sína leið til að lifa af.

Vassily Sigarev er talinn eitt fremsta leikskáld nýrrar kynslóðar í Evrópu og hefur hlotið fjölda verðlauna á síðastliðnum misserum.  Meðal annarra verka hans eru Plasticine og Svört mjólk sem bæði voru frumsýnd í Royal Court leikhúsinu í London. Það síðastnefnda var einnig sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir skömmu.

Árni Bergmann þýddi verkið úr rússnesku en Jón Páll Eyjólfsson er leikstjóri sýningarinnar. Hann var tilnefndur til menningarverðlauna DV í fyrra fyrir leikstjórn og gagnrýnandi Morgunblaðsins útnefndi hann „mann ársins í íslensku leikhúsi”. Maríubjallan er önnur uppsetning hans í atvinnuleikhúsi en hann leikstýrði Frelsi fyrir áramóti í Þjóðleikhúsinu. Leikmynd og búninga hannar Halla Gunnarsdóttir, lýsing er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar. Höfundur tónlistar er Hallur Ingólfsson. Leikarar eru: Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Esther Thalía Casey, Guðjón Davið Karlsson, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þráinn Karlsson. Leikhópurinn heldur úti æfingadagbók á netinu. Slóðin er: www.mariubjallan.blogspot.com.

Með frumsýningu Maríubjöllunnar tekur Leikfélag Akureyrar í notkun nýtt leikrými sem það kaus að nefna einfaldlega Rýmið. Það er til húsa að Hafnarstræti 73 en þar hefur ýmis menningar- og skemmtistarfsemi verið starfrækt í gegnum tíðina. Húsið hefur gengið undir ýmsum mismunandi nöfnum, s.s. Lón, Dynheimar og nú síðast Húsið. Rýmið er nú í grunninn svartur kassi sem hægt er að nota á ólíka vegu til leiksýninga. Hægt er að raða áhorfendum á alla kanta og staðsetja leikrými á ólíkan hátt. Ljóst er að Rýmið opnar marga nýja möguleika fyrir LA enda er það gjörólíkt Samkomhúsinu þar sem aðalstarfsemi LA fer fram hér eftir sem hingað til. Auk þess að nýtast sem sýningarrými þá mun leikhúsið nýta húsnæðið sem æfingaaðstöðu og þar verður bætt aðstaða fyrir leikmuna-, búninga- og leikmyndasafn leikhússins.