Hjá leikfélaginu Hugleik standa nú yfir æfingar á leikritinu Helgi dauðans eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Leikstjórar sýningarinnar eru tveir, þeir Rúnar Lund og Sigurður H. Pálsson. Í leikhópnum eru ellefu manns, þar af þreyta sjö hér frumraun sína með Hugleik. Stefnt er að frumsýningu í janúarmánuði.

Í verkinu eru raktir atburðir einnar helgar á heimili þriggja ungmenna, tvíburanna Birtings og Ninnu og vinkonu þeirra Dagnýjar. Ýmsir litríkir vinir þeirra líta við, svo og óboðnir gestir, þau Birtingur, Ninna og Dagný þurfa að takast á við óþægilegar uppákomur sem reyna á samband þeirra en stundum segja þau eitthvað fyndið.

Þótt leikritið sé hér frumflutt er það ekki alveg nýtt af nálinni. Það var upprunalega skrifað um aldamótin, en höfundur hefur nú fært það í nútímabúning. Gegnum tíðina hefur verkið gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem Allt er hey í ástum og stríði og Búdda á kantinum. Að auki hafa komið til tals titlar á borð við Ham og Spam fara í nördana“ og Pizzusendillinn kemur alltaf tvisvar“.

{mos_fb_discuss:2}