Um næstu helgi, 19.-21. nóvember, heldur Þjóðleikhúsið í leikferð norður yfir heiðar með Íslandsklukkuna. Alls verða þrjár sýningar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, kvöldsýningar á föstudegi og laugardegi en á sunnudeginum er sýning kl. 14. Íslandsklukkan var frumsýnd þann 22. apríl á liðnu vori, í tilefni af 60 ára afmæli Þjóðleikhússins. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda og verið sýnd fyrir fullu húsi allar götur síðan.
Íslandsklukkan hlaut fern Grímuverðlaun s.l. vor og féllu verðlaun fyrir bestu tónlistina í skaut þeim Norðlendingum Eiríki G Stephensen og Hjörleifi Hjartarsyni, en saman mynda þeir hljómsveitina velþokkuðu Hundur í óskilum. Þeir hafa farið fleiri ferðir suður yfir heiðar til Íslandsklukkuæfinga og – sýninga en tölu verður á komið. Það verður því kærkomið fyrir þá félaga að fá leikhópinn á sinn heimavöll.
Íslandsklukkan hefur í gegnum tíðina notið gífurlegra vinsælda hjá íslensku þjóðinni, jafnt á bók sem á leiksviði. Verkið var fyrst sett á svið þegar Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og var sú sýning ein af þremur opnunarsýningum leikhússins. Svipmiklar aðalpersónur verksins, Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól og Arnas Arnæus, hafa eignast vissan stað í hjarta Íslendinga. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú, á þetta stórvirki um tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir brýnt erindi við okkur.
{mos_fb_discuss:2}