Elsta leiklistarhátíð landsins, Act alone, verður haldin í þrettánda sinn 11. – 13. ágúst næstkomandi. Hátíðin er haldin í sjávar- og einleikjaþorpinu Suðureyri við Súgandafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er hátíðin helguð einleiknum og er eina sinnar tegundar á landinu – ef ekki bara á öllum Norðurlöndunum. Margt er fleira einstakt við Act alone því það er ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar. Dagskrá ársins var kunngjörð fyrir skömmu og er óhætt að segja að hún sé alveg einleikin.
Act alone á Suðureyri bíður að vanda uppá eitthvað fyrir alla, konur, karla og krakka á öllum aldri. Boðið verður uppá leiklist, dans, tónlist, myndlist og ritlist. Listamenn ársins koma úr allri listaflórunni má þar nefna Gerði Kristnýju, Gunnar Helgason, Gunnar Þórðarson, Sesar A, Stefán Hall Stefánsson og Sögu Sigurðardóttur. Að sjálfsögðu mun aðeins einn listamaður koma fram hverju sinni því það er galdur Act alone. Hátíðin í ár hefst fimmtudagskveldið 11. ágúst. Mikilvægt er að seðja maga áður en andinn er fóðraður og því er byrjað með einstakri fiskiveislu að hætti sjávarþorpsins Suðureyri. Síðan hefst hin andlega veisla með sýningu á einleiknum Ríkharði þriðja sem er einleiksútgáfa á einu þekktasta verki William Shakespeare. Sú sýning verður í kirkjunni á Suðureyri en sýningarstaðir Act alone eru þrír þetta árið. Auk guðshússins veður sýnt í skemmunni Þurrkveri og síðasta en ekki síst í hjarta þorpsins í félagsheimilinu. Alls verður boðið uppá 16 einstaka viðburði á Act alone í ár og eins og áður var getið er ókeypis á þá alla.
Leiksýningar hafa að vanda verið fyrirferðamiklar á Act alone. Í ár ber sérlega vel í veiði því boðið verður uppá frumsýningu á einleik. Um er að ræða verkið Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöflulsins fáviti eftir Rodrigó García. Leikari er Stefán Hallur Stefánsson og leikstjórn annast Una Þorleifsdóttir. Verk Garcia er súrrealískt eintal flutt af manneskju í tilfinningalegum bræðsluofni. Maður á brún sálræns hengiflugs vegna fjölskylduaðstæðna, efnahags og tilvistarkreppu, ræðst á tilgangsleysi lífsins. Lífs sem einkennist af efnishyggju samtímans. Hann skipuleggur æðisgenginn flótta frá skilyrtu samfélaginu ásamt tveimur ungum sonum sínum. Hann ætlar að taka út ævisparnaðinn. Hann ætlar að brjótast inná Pradó listasafnið í Madríd og eyða einni nótt með listaverkum Goya. Synir hans vilja frekar fara í Disneyland, París. Verkið dregur upp sterka mynd af manni sem öskrar á óréttlæti kerfisins. Örvæntingarfullt ýlfur runnið undan áhrifum efnhagskreppunnar og grimm gagnrýni á andvaraleysi nútímans.
Tónlistin hefur ávallt verið fyrirferðamikil á Act alone og svo er einnig í ár. Það má segja að kynslóðirnar mætist því lagahöfundur þjóðarinnar Gunnar Þórðarson verður með brot af því besta úr sinni þykku söngbók. Einn af frumherjum rappsins hér á landi Sesar A hefur ekki síður skilið eftir áhrifamikil spor og verður með einstaka rapp tónleika á hætti Sesars. Fulltrúi ritlistar á Act alone í ár er Gerður Kristný sem mun lesa úr verki sínu Drápa. Myndlistin er sannarlega einstök list enda eru menn oftast einir við þá merku iðju. Arngrímur Sigurðsson, einstakur listamaður er farið hefur sínar eigin leiðir, verður með sýninguna Duldýrin. Skepnur hans hafa meira að segja ratað í bókverk er ber sama nafn og vakti mikla athygli. Margt fleira verður boðið uppá á Act alone, má þar nefna opna æfingu á nýju íslensku leikverki um Gísla á Uppsölum.
Dagskrá Act alone er á heimasíðunni www.actalone.net
Act alone gæti aldrei verið ókeypis nema eiga góða að. Bakhjarl hátíðarinnar er Fisherman á Suðureyri en auk þess stendur stór hópur styrktaraðila að baki hinni einstöku Act alone.