“Barry and his Guitar“ er söngleikur á ensku þar sem leikarinn, grínistinn og tónlistarmaðurinn Bragi Árnason fer með öll hlutverkin í eigin verki.
Aðeins ein sýning í Tjarnarbíói, laugardaginn 13. ágúst kl. 20:30.
Við kynnumst Barry, feimnum en viðkunnalegum ungum draumóramanni, sem vinnur á kaffihúsi í London. Hann bæði syngur og spilar á gítar. Einn dag lendir hann upp á kant við eitt af glæpagengjum borgarinnar og á það eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.
Grínævintýri úr stórborginni, stútfullt af skemmtilegum lögum, litríkum persónum og einlægum boðskap. Handrit, lög og textar eru eftir sjálfan Braga Árnason. Hann byggir persónurnar lauslega á fólki og atburðum sem urðu á vegi hans á átta ára ævintýralegri Lundúnardvöl.
Bragi Árnason útskrifaðist sem leikari frá Kogan Academy of Dramatic Art í London 2010. Hann hefur leikið í söngleikjum, leikhúsuppfærslum, kvikmyndum, stuttmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum, bæði hér á landi og erlendis.
Bragi skrifaði og framleiddi einleikinn “Barry and his Guitar” árið 2013 og hefur sýnt hann á nokkrum stöðum í London, í Mengi, Reykjavík, á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri og á Edinborgarhátíðinni Fringe í fyrra, við góðar viðtökur.
Miðaverð er 2.500 kr.
Sýnt kl. 20:30 laugardaginn 13. ágúst.