Vonarstrætisleikhúsið með stuðningi Tjarnarbíós efnir til leiklestrar á Fuglinum bláa þriðjudaginn 13. maí til eflingar hugsjónastarfi Amnesty International, en Íslandsdeild Amnesty verður 40 ára á þessu ári. Fuglinn blái er eitt þekktasta verk leikbókmenntanna og t.d. hlaut höfundurinn Maurice Maeterlinck bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir það verk árið 1911. Hátt á annan tug þjóðkunnra listamanna taka þátt í flutningnum á leiknum sem er í íslenskum búningi eftir Einar Ól. Sveinsson. Þetta er frumflutningur á þessari þýðingu, en leikurinn hefur verið leikinn um víða veröld í heila öld. Sveinn Einarsson býr leikinn til flutnings og stýrir leiklestrinum. Leiklesturinn hefst kl. 20:00.

Fuglinn blái
Belgíumaðurinn Maurice Maeterlinck er með þekktustu leikskáldum 20. aldar, og að margra dómi fremstur þeirra sem gerðu sér táknsæisstefnuna eða symbólismann að tjáningarformi.

Fuglinn blái er ævintýraleikur, þar sem hugmyndaauðgin ræður ríkjum en þar er einnig fjallað um mál sem enn eru efst á baugi í mannlífinu, minnt á gildi fortíðar til að fóta sig í nútíð og framtíð, hvatt til manneskjulegrar umgengni um náttúruna og hugað að mannréttindum.

Fuglinn blái fór sigurför um heiminn þegar hann kom fram, þrátt fyrir það að hann krefðist feikilegs sviðsbúnaðar og í honum væru 106 hlutverk. Hann hefur tvisvar verið kvikmyndaður og einnig var búin til leikin sjónvarpsröð byggð á honum.

Hér er leikurinn styttur til muna og það eru 17 leikarar sem fara með hlutverkin, margir þó mörg. Þeir eru Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Edda Þórarinsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Hallmar Sigurðsson, Ingi Hrafn Hilmarsson, Jakob Þór Einarsson, Kristján Franklín Magnús, Kolbrún Halldórsdóttir, Sigurþór Albert Heimisson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson, Þór Tulinius, Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Þórunn Lárusdóttir og Valgerður Dan.

Maurice Maeterlinck
Belgíska skáldið Maurice Maeterlinck var fætt árið 1862 og lifði allar götur til 1949. Í síðari verkum Ibsens, Strindbergs og Gerhards Hauptmanns gætti æ meiri sýmbólískra eiginleika, en Maeterlinck er almennt talinn það leikskáld sem öðrum fremur varð höfuðskáld þessarar listastefnu. Ævintýraleikurinn Fuglinn blái var hann er saminn 1908, og 1911 var skáldið sæmt Nóbelsverðlaunum m.a. fyrir þann leik.

Einar Ól. Sveinsson var einn kunnasti bókmenntamaður þjóðarinnar um sína daga, sérfræðingur í þjóðsögum og fornbókmenntum og ritaði m.a. tímamótarit um Njáls sögu.

Vonarstrætisleikhúsið hóf starf sitt 2009 og voru stofnendur þess þau Vigdís Finnbogadóttir og Sveinn Einarsson. Það hefur einbeitt sér að verkum sem ekki eru hversdagsmatur á leiksviðum annarra leikhúsa, leiklestrum , rútubílasöng, leiksmiðju höfunda o.s.frv. Í haust er ráðgert að efna til kvölddagskrár til heiðurs vestur-íslenska skáldinu Guttormi J. Guttormssyni.

Allir listamenn sem koma að flutningi Fuglsins bláa gera það endurgjaldlaust og Tjarnarbíó leggur einnig fram húsaskjólið endurgjaldslaust til ágóða fyrir Amnesty. Aðgangseyrir er aðeins 1000 kr., en einnig verður söfnunarbaukur á staðnum. Leiklesturinn hefst kl. 20:00.

Upplýsingar og miðasala: http://www.tjarnarbio.is/?id=882