Leikritið Dauðasyndirnar, guðdómlegur gleðileikur, sem frumsýnt var þann 8. maí síðastliðinn í Borgarleikhúsinu mun halda áfram göngu sinni næsta haust og verða hluti af glæsilegri dagskrá næsta starfsárs. Síðustu sýningar eru nú um helgina og fyrir löngu orðið uppselt. Í verkinu segir frá hremmingum Dantes og ferð hans um hringi helvítis í leið sinni um hreinsunareldinn til paradísar. 4 trúðar segja söguna og miðla til áhorfenda af ótæmandi viskubrunni sínum um leið. Sýningar hefjast aftur á haustdögum.

Um hvað er verkið?
Miðaldaljóð Dantes, Divina Commedia,  er talið til mestu gersema heimsbókmenntanna. Dauðasyndirnar byggja frjálslega á verkinu og er stórkostleg sjálfskoðun, bráðfyndin og  harmræn í senn. Áhorfendur máta sig við mannlega bresti og kosti og geta átt von á óvæntum útspilum frá þeim Barböru, Úlfari, Zö-ru og Gjólu, trúðunum 4 sem leiða okkur um afkima sálarinnar og spegla tilfinningarnar sem hrærast í okkur öllum.

Trúðaleikur fyrir fullorðna

Halldóra Geirharðsdóttir, Bergur Ingólfsson, Harpa Árnadóttir og Halla Margrét Jóhannsdóttir hafa vakið mikla lukku í hlutverkum sínum en sýninguna unnu þau í samstarfi við argentínska leikstjórann Rafael Bianciotto.

Gagnrýnendur eru á einu máli:
„Ég var alveg orðin tvöföld í sætinu af hlátri …"  „ … sýningin er dýrleg leikhúsreynsla …"
Silja Aðalsteinsdóttir – Tímarit Máls og menningar (tmm.is)

„Allur frágangur á sýningunni er fyrsta flokks. "  „Ekki missa af Dauðasyndunum."

Páll Baldvin Baldvinsson, Fréttabl.

„Sýningin er bráðfyndin og skemmtileg en með háalvarlegum tóni. " 
Ingibjörg Þórisdóttir, Morgunblaðið