Leikfélag Eyrarbakka frumsýnir Stöndum saman, leikverk eftir Huldu Ólafsdóttur fim. 10. apríl á veitingastaðnum Rauða Húsinu á Eyrabakka.
Hvað gerist þegar daglegt líf ungs pars fer að flækjast? Þegar barneignir, nám, vinnuálag, tengdaforeldrar, íbúðarkaup og samskiptaörðugleikar hrannast upp – og enginn veit nákvæmlega hvernig á að halda utan um allt? Stöndum saman, nýjasta sýning Leikfélags Eyrarbakka, varpar skemmtilegu, einlægu og oft á tíðum sprenghlægilegu ljósi á raunveruleikann sem margir þekkja – og gerir það með bæði söng og sál.
Leikritið fjallar um unga parið Öldu og Edda sem reyna að halda lífinu gangandi í gegnum gleði og sorgir hversdagsins. Verkefnin eru mörg – vinna, uppeldi, væntingar annarra og skortur á tíma og orku – en þau reyna að standa saman í gegnum allt. Í sýningunni er dregin upp mynd af samfélagi þar sem allir virðast eiga að gera allt, vera allt og lifa lífinu til fulls – en stundum þarf einfaldlega að staldra við og spyrja: “Erum við að gera þetta rétt?”
Hulda Ólafsdóttir er bæði höfundur og leikstjóri sýningarinnar, en hún stofnaði einnig Leikfélag Eyrarbakka og hefur staðið að fjölda verkefna í gegnum tíðina. Þegar stjórn leikfélagsins leitaði að viðeigandi sýningu og húsnæði fyrir leikárið reyndist það ekki auðvelt – fyrr en Hulda kom með Stöndum saman, verk sem hún hafði sjálf sett upp í Keflavík fyrir rúmum 30 árum. Þar var það sýnt á veitingastaðnum Glóðinni og sú hugmynd gaf innblástur að sýna verkið í samstarfi við Rauða Húsið á Eyrarbakka. Þar hefur það fengið notalegt, óhefðbundið leikhúsrými sem gefur sýningunni sérstakan sjarma.
Sýningin er afar tónræn – með rúmlega 30 þekktum lögum sem hafa fengið nýjan, fyndinn og oft hjartnæman texta eftir Huldu sjálfa. Að auki er eitt frumsamið lag í lok sýningar, samið af píanóleikaranum Jóni Aroni Lundberg við texta Huldu.
Leikhópurinn telur alls 17 leikara – 18 með píanóleikaranum – og á bakvið sviðið starfar duglegt fólk sem sér um leikmuni, ljósmyndun og aðstoð við sýningarnar. Æfingarnar hafa gengið ótrúlega vel, þó þær hafi krafist úthalds og útsjónarsemi, enda sinna flestir leikararnir líka vinnu, námi og fjölskyldulífi – rétt eins og persónurnar í verkinu sjálfu. Það skorti lítið upp á að sýningin hefði ekki náð að fullmanna sig, en með þrautseigju og smá heppni bættist í hópinn síðustu metrana og fleiri söngvarar skráðu sig en upprunalega var gert ráð fyrir.
Stemningin fyrir frumsýningu er rafmögnuð. Það ríkir mikil spenna í hópnum en þetta er góð spenna – sú sem lætur hjartað slá aðeins hraðar en gefur orku og kraft.
Sýningin “Stöndum saman” er fyrir alla sem vilja hlæja, dást, tengja við lífið og kannski jafnvel finna sig í einhverri af persónunum á sviðinu. Því þessi sýning snýst um okkur öll – hvernig við reynum að púsla saman lífinu, stundum með bros á vör og stundum með tár í augunum. En fyrst og fremst – saman.

Miðasala er á Tix.is.