Leiklistarskóli Bandalags ísl. leikfélaga auglýsir:
Harpa Arnardóttir leikkona hefur tekið að sér að kenna á Trúðanámskeiði Leiklistarskólans í stað Ágústu Skúladóttur.
Harpa Arnardóttir stundaði nám í málaradeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1984-1986 og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1990. Hún hlaut Grímuna 2009 fyrir leik sinn í Steinar í djúpinu, en auk þess hefur hún fimm sinnum verið tilnefnd til Grímunnar sem besta leikkona í aðalhlutverki; fyrir leik sinn í And Björk of course (Borgarleikhúsið) 2003, Sporvagninn Girnd (Borgarleikhúsið) 2004, Dubbeldusch (Vesturport/Leikfélag Akureyrar) 2008, Dauðasyndirnar (Borgarleikhúsið) 2009 og Steinar í djúpinu (Lab Loki/Hafnarfjarðarleikhúsið) 2009. Hún hefur tvívegis verið tilnefnd til menningarverðlauna Dagblaðsins fyrir störf sín á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Skráningar á námskeiðið standa til 30. apríl.
Harpa stofnaði listafélagið Augnablik1991. Markmið félagsins er að vera vettvangur fyrir listsköpun, rannsóknir og fræðslu. Félagið hefur sett upp leiksýningar, haldið tónleika og námskeið og staðið fyrir ferðum inn á hálendi Íslands.
Harpa hefur kennt leiklist, leikstýrt og leikið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, nú síðast í Stóra planinu og Kurteisu fólki í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar. Harpa er áhugamanneskja um íslenska leikritun og hefur tekið þátt í tuttugu og þremur frumuppfærslum á nýjum íslenskum verkum. Hún var tilnefnd ásamt samstarfsólki sínu til Grímunnar fyrir handritið að Dauðasyndunum 2009. Hún stundar nú meistaranám í Ritlist við Háskóla Íslands.
Þetta er í fjórða sinn sem Harpa kennir við skólann.
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.
Námskeiðslýsing:
Farið verður í undirstöðuatriði trúðsleiksins. Hver nemandi setur upp nefið og kynnist trúðnum sínum. Trúðarnir æfa trúðareglurnar og kynnast persónulegu sambandinu sínu við áhorfandann. Við vinnum með leiktækni og leikgleði og könnum hvernig þessir tveir þættir skarast. Trúðatæknin er frábær leið til þess að kynnast list augnabliksins þar sem allt getur gerst. Námskeiðið þjálfar nemendur í sviðsleik og hjálpar þeim til að elska mistökin og gera eins vel og þeir geta. Trúðarnir reyna líka þá list að vera saman á sviði og fást við þekkt stef úr leikbókmenntunum.