Leynileikhúsið hefur nýja önn á áttunda starfsári sínu af miklum krafti og stórkostlegri leikgleði! Vornámskeið Leynileikhússins 2012 hefjast í byrjun febrúar. Námskeiðin eru aldursskipt fyrir börn og unglinga í 2-10. bekk og eru haldin í samstarfsskólum okkar víðsvegar um höfðuborgarsvæðið. Hvert námskeið tekur 12 vikur og lýkur með sýningu í atvinnuleikhúsi þar sem afrakstur vinnunnar er sýndur.

Þar fá ungu leikararnir búninga og leikhúsmálningu og aðstandendum boðið að koma og sjá þá blómstra á sviðinu. Samstarfsskólar Leynileikhússins  þar sem námskeiðin fara fram eru: Kársnesskóli, Rimaskóli, Seljaskóli, Langholtsskóli, Vesturbæjarskóli, Ísaksskóli, Flataskóli í Garðabæ, Grunnskóli Seltjarnarness,  Laugarnesskóli og Hvassaleitisskóli.

Nánar um námskeiðin:
Leiklistarnámskeið Leynileikhússins byggjast fyrst og fremst upp á mottóinu „GLEÐI“. Í raun þýðir það að öll kennsla sem fram fer í leiklistartímum okkar er á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Með þetta mottó að leiðarljósi fá nemendur leiðsögn í grunnatriðum leiklistar með hjálp leikja. Farið er yfir mikilvæg atriði eins og einbeitingu, hvernig gefa skal skýr skilaboð, hlustun, samvinnu og leiklistarsköpun. Önnin endar svo á uppsetningu leikrits þar sem allir taka þátt í að skapa leikverk frá grunni. Þessi lokapunktur er ekki síður mikil reynsla þar sem krakkarnir fá að nýta allt sem þau hafa lært á önninni með því að standa á sviði og sýna frumsamið verk.

Allir kennarar Leynileikhússins eru fagmenntaðir leikarar og/eða leikstjórar sem hafa góða reynslu af leiklistarkennslu. Námskeiðin eru haldin í skólunum sjálfum í beinu framhaldi af skóladeginum svo foreldrar þurfi ekki að keyra börnin í tímana.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðunni www.leynileikhusid.is, senda tölvupóst á netfangið info@leynileikhusid.is eða hringja í síma 864-9373.

{mos_fb_discuss:3}