Rúi og Stúi hafa smíðað vél sem getur allt. Hún getur búið til hluti, gert við hluti, gert afrit af hlutum og jafnvel gert nákvæma styttu af bæjarstjóranum. Eða hvað? Vélin bilar, bæjarstjórinn hverfur og dularfull kráka og enn dularfyllri stórþjófur koma öllu í uppnám. Hvað er til ráða annað en að baka sjálfur jólaköku? Fær Bergsteinn aðstoðarmaður sinn ástkæra bæjarstjóra aftur? Tekst Rúa og Stúa að gera við vélina?
Leikfélag Kópavogs frumsýndi barnaleikritið Rúa og Stúa sunnudaginn 14. mars síðastliðinn. Leikritið er eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson en leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson. Átta leikarar taka þátt í sýningunni en auk þess koma fjölmargir aðrir að uppsetningunni.
Sýningar eru í Leikhúsinu í Kópavogi. Nánari upplýsingar má fá á vef félagsins og þar er einnig hægt að kaupa miða.