Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Hreinsun eftir Sofi Oksanen á Stóra Sviðinu fimmtudaginn 27. október kl. 19:30. Hreinsun er einstaklega áhrifamikið verk um ást, grimmd og svik, og örvæntingarfulla baráttu manneskjunnar fyrir því að lifa af ofbeldi og niðurlægingu og verða heil að nýju. Leikstjóri er Stefán Jónsson.
Hreinsun er meðal umtöluðustu skáldverka undanfarinna ára. Leikritið var frumflutt í finnska Þjóðleikhúsinu árið 2007 og í kjölfarið skrifaði höfundurinn skáldsögu upp úr efni þess sem farið hefur líkt og eldur í sinu um Evrópu, víða orðið metsölubók og sankað að sér verðlaunum. Oksanen hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Hreinsun á liðnu ári. Skáldsagan kom út hjá Máli og menningu í fyrra og hefur notið mikillar hylli íslenskra lesenda.
Ilmur Stefánsdóttir gerir leikmynd, Þórunn María Jónsdóttir sér um búninga, tónlist og hljóðmynd gerir Paul Corley, lýsingin er í höndum Halldórs Arnar Óskarsson og þýðingin er eftir Sigurð Karslsson.
Með hlutverk í sýningunni fara Margrét Helga Jóhannsdóttir, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Þorsteinn Bachmann, Pálmi Gestsson og Ólafur Egill Egilsson.
{mos_fb_discuss:2}