Súldarsker segir frá tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, árásargjarnir mávar, krullumót í félagsheimilinu og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu. Leikstjóri er Harpa Arnardóttir og leikarar Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir .
Svikarinn með Árna Pétri Guðjónssyni í uppsetningu Rúnars Guðbrandssonar hefur hlotið einróma lof áhorfenda. Þeir hafa í sameiningu unnið leikgerðina sem sækir innblástur m.a. til franska rithöfundarins Jean Genet og byggir einkum á leikverki hans Vinnukonunum (Les Bonnes). Svikarinn er í senn harmrænt verk og spaugilegt, fullt af reiði og grimmd, freníum, fóbíum og frústrasjónum, – góðlátlegu gríni og ekki sérlega góðlátlegu. Óvægin árás og miskunnarlaus einlægni. Þetta er glíma leikarans við hlutverkið, – og glíma þeirra beggja við sjálfan sig. Í óreiðunni allri er leikarinn sjálfur þungamiðja og útgangspunktur; sá sem leikur og sá sem leikið er á, sá sem kúgar og er kúgaður, sá sem svíkur og er svikinn.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar og miða á www.tjarnarbio.is og í miðasölu Tjarnarbíós sem er opin alla virka daga milli 13 og 15.
{mos_fb_discuss:2}