Tengdó, nýtt leikverk eftir Val Frey Einarsson, verður frumsýnt á litla sviðinu næstkomandi fimmtudagskvöld, 29. mars, kl. 20. Hér er ráðist í gerð heimildaleikhúss þar sem skyggnst verður í persónulega sögu listamannanna. Leikhópurinn CommonNonsense hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar sýningar sem ramba á barmi myndlistar og leikhúss. Þau hafa áður m.a. sett upp Hrærivélina, CommonNonsense og Forðist okkur. Hópnum hefur bæst liðsstyrkur með leikstjóranum Jóni Páli Eyjólfssyni.

Í forgrunni er áratugalöng leit „ástandsbarns“ að föður sínum og djúpstæð þörf hennar á að þekkja uppruna sinn en um leið er horft gagnrýnum augum á íslenskt samfélag þá og nú.

„Aðeins hvítir menn, helst af norrænum stofni, mega vera í herliðinu sem kemur til landsins,
til að íslenska kynstofninum stafi sem minnst hætta af hernum.“ – Frá ríkisstjórn Íslands, 1941.

En það var einn sem slapp í gegnum síuna. Hann sáði fræi í frjóan svörð. Hans var enn leitað 50 árum síðar.
Hann er pabbi minn. Ég er eina litaða barnið í Höfnum.

Leikmynd og búninga hannaði Ilmur Stefánsdóttir, tónlist semur Davíð Þór Jónsson, lýsingu hannaði Aðalsteinn Stefánsson og leikarar eru Valur Freyr Einarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir.

{mos_fb_discuss:2}