Leikhópurinn Fröken Fix var stofnaður vorið 2009 af Aldísi Davíðsdóttur og Guðrúnu Sóley Sigurðardóttur. Aðalstefna Fröken Fix er að sjá um allt sem við kemur sýningum sjálfar. Þær leikstýra, leika, sjá um leikmynd, búninga og allt sem mögulega tengist sýningum. Tvíeykið vann að uppsetningu leikritsins Bergmál hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar sem sýnt var í ágústmánuði 2009 og fengu þá aðstoð karlleikarans Halldórs Magnússonar sem lék í verkinu.
Nú í sumar mun leikhópurinn bæta enn frekar við sig og hafa sjálfar skrifað handrit að nýju íslensku verki. Verkið ber nafnið Ómynd og verður frumsýnt á sviðslistahátíðinni ArtFart í ágúst og einnig sýnt í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Eins og áður segir sér Fröken Fix um flest allt sem við kemur sýningunni.
Ómynd fjallar um tvær systur sem eru á flótta undan óskilgreindri ógn. Þær enda ofan í kjallara þar sem þær bíða þess að þriðja systirin komi með mat og aðstoð. Ekki líður á löngu þar til særður maður hrökklast ofan í kjallarann. Systurnar taka honum með fyrirvara en maðurinn reynist góður og vill þeim vel. Biðin eftir þriðju systurinni og matnum verður erfiðari með hverjum tímanum sem líður og loks átta systurnar sig á því að ekki er allt sem sýnist.
Ómynd tekur á innilokun, eymd og erfiðum aðstæðum, en einnig hvernig hægt er að flýja þær með ímyndunaraflinu einu saman. Verkið er því í senn dramatískt, spennandi og sprenghlægilegt.
Ómynd verður frumsýnt á sviðslistahátíðinni ArtFart í ágústmánuði. Sýningartímar fyrir hátíðina verða auglýstir síðar. Verkið verður einnig sýnt í húsakynnum Leikfélags Hafnarfjarðar og verða sýningarnar eftirfarandi:
Föstudagurinn 20. ágúst kl 18.00 Leikfélag Hafnarfjarðar
Föstudagurinn 20. ágúst kl 21.00 Leikfélag Hafnarfjarðar
Mánudagurinn 23. ágúst kl 20.00 Leikfélag Hafnarfjarðar
Þriðjudagurinn 24. ágúst kl 20.00 Leikfélag Hafnarfjarðar
Miðaverð á sýninguna er 1800 krónur og miðapantanir fara fram í gegnum netfangið frokenfix.iceland@gmail.com eða í síma 8688720. Einnig viljum við benda fólki á síðuna okkar, www.facebook.com/frokenfix þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar um Fröken Fix, sýningar ofl.
{mos_fb_discuss:2}