Alþjóðlega áhugaleikhúsráðið, IATA, skipuleggur reglulega leiklistarhátíðir víðs vegar um heiminn, sú síðasta var haldin í Mónakó 2009. Næsta IATA-hátíð verður haldin í Tromsö í Noregi dagana 14. til 24. júlí 2011. Bandalag íslenskra leikfélaga hefur sótt um að senda íslenska sýningu á hátíðina og auglýsir hér með eftir leikfélögum sem hafa áhuga á að taka þátt. Ef fleiri en einn hópur sækir um verður skipuð dómnefnd sem velur milli umsækjenda.

Umsóknir þurfa að berast Bandalaginu fyrir 20. ágúst 2010 og þurfa upptökur af sýningunum að fylgja ásamt almennum upplýsingum um umsækjanda og sýningu. Ekki verða útbúin sérstök umsóknareyðublöð. Sýningarlengd má ekki fara yfir 60 mín.

Dómnefnd fjallar síðan um umsóknirnar og skilar niðurstöðu í síðasta lagi þann 10. september en þá hefur sýningin sem valin verður tíma til 15. september til að útbúa þau gögn sem beðið er um að send séu með umsókninni til Noregs. Þar fer umsókn Íslands fyrir aðra valnefnd sem endanlega velur sýningar inn á hátíðina en hún skilar sinni niðurstöðu þann 15. nóvember 2010.

Sendið umsóknir ásamt upptökum til Bandalags íslenskra leikfélaga, Suðurlandsbraut 16, 108 Reykjavík fyrir 20. ágúst 2010.