Íslenskt dansverk verður frumflutt fimmtudaginn 21. ágúst kl. 18:00 í Smiðjunni Sölvhólsgötu 13. Það er Hreyfiþróunarsamsteypan sem er þar á ferð og lýsir verkinu á eftirfarandi hátt:
Dansverk sem horfist í augu við einveruna í margvíslegum myndum. Hvernig á að teygja sig út til fólks án þess að missa jafnvægið? Getum við haldið partíinu gangandi eða er kominn tími til að fara heim?
Hugmyndin að verkinu kviknaði fyrir tveimur árum þegar samsteypan var beðinn um að vinna verk fyrir Afmælishátíð dansleikhús með Ekka uppúr handriti Eva3. Síðan þá hefur hugmyndin tekið stakkaskiptum og orðið að sjálfstæðri sýningu. Þetta er stærsta verkefni samsteypunnar til þessa og er meðal annars styrkt af Reykjavíkurborg og Ungu fólki í Evrópu. Auk þess hefur Listaháskóli Íslands lánað okkur sýningarrými hér á landi. Hluti verksins var þó unnin í Pa-f (Performing arts Forum), gömlu nunnuklaustri í Norður-Frakklandi, sem rekinn er af hollenska leikstjóranum Jan Ritsema. Verkið vinnum við í sameiningu útfrá deviced aðferð en tónlistin er eftir belgíska listamanninn Benjamin Dousselaere.
Hreyfiþróunarsamsteypan hefur verið starfrækt frá sumrinu 2005. Á þremur árum hefur hún sýnt á fjölmörgum stöðum, sett upp sýningar í listasöfnum, galleríum, stóru leikhúsunum, Ó Johnson og Kaaber kaffiverksmiðjunni, Færeyjum, Ítalíu, og Þýskalandi. Samsteypan er nýlega orðin aðili í Sjálfstæðu leikhúsunum (SL). Hópurinn hefur jafnan gert tilraunakenndar sýningar til að víkka út skilgreiningu almennings á dansi. Samsteypan hefur einnig unnið með ýmsum listamönnum, m.a. Hörpu Einarsdóttur fatahönnuð, Páli Ragnari Pálssyni tónlistarmanni og Karenu Maríu Jónsdóttur dramatúrg. Meðalaldur samsteypunnar er aðeins 22 ára.
Sýnt verður í Smiðjunni, Sölvhólsgötu 13 (gengið inn baka til)
21. ágúst kl. 18:00
22. ágúst kl. 20:00
23. ágúst kl. 17:00
Miðapantanir í síma 693-3385 og á icecorp.kd@gmail.com