Aðalfundur Leikfélags Selfoss var haldinn í Litla leikhúsinu við Sigtún þann 10. maí. Mæting á fundinn var góð og létt yfir fólki og fundinum að vanda. Farið var yfir starfið á leikárinu sem var að ljúka, teknir inn fjölmargir nýjir félagar og kosið í stjórn.

Meðal þess sem kom fram á fundinum var að Guðfinna Gunnarsdóttir vinnur nú að undirbúningi á leiksýningu sem hún mun leikstýra næsta haust hjá leikfélaginu. Verkið verður kvennasýning en hún er unnin upp úr skáldverkum hinnar kanadísku Margaret Atwood. Einnig var afmælisnefnd leikfélagsins kynnt en Leikfélag Selfoss verður 60 ára þann 9. janúar 2018. Nefndin mun vinna að tillögum að afmælisdagskrá í tilefni þess. Ýmistlegt fleira skemmtilegt var rætt og fundurinn bráðfjörugur á köflum.

Nýr formaður var kosinn á fundinum en Sigrún Sighvatsdóttir fékk dynjandi lófaklapp allra viðstaddra í embættið. Hún er að taka við stjórnataumunum á ný eftir nokkurra ára hlé. Ný stjórn hefur nú skipt með sé verkum og er eftirfarandi:

Formaður – Sigrún Sighvatsdóttir
Varaformaður – Guðný Lára Gunnarsdóttir
Ritari – Jónheiður Ísleifsdóttir
Gjaldkeri – Svanhildur Karlsdóttir
Meðstjórnandi – Viktor Ingi Jónsson

Í varastjórn sitja: F. Elli Hafliðason, Sigríður Hafsteinsdóttir og Gústav Þór Stolzenwald.