Loftkastalinn fagnar 10 ára afmæli sínu næstkomandi föstudag, þann 12. ágúst. Það var í ágúst 1995 sem starfsemi leikhússins hófst eftir að vélsmiðjunni í gamla Héðinshúsinu við Seljaveg hafði verið breytt í hefðbundið leikhús með sætum fyrir 400 áhorfendur. Nú tíu árum síðar er Loftkastalinn enn stærsta einkarekna leikhúsið. Fyrsta verkefni Loftkastalans var söngleikurinn Rocky Horror í leikstjórn Baltasars Kormáks sem sýndur var yfir 60 sinnum á fyrsta leikárinu. Um 500 þúsund gestir hafa síðan lagt leið sína á fjölmarga viðburði í húsinu bæði leiksýningar og tónleika. Oftar en ekki hafa sýningar Loftkastalans verið með þeim vinsælustu ár hvert. Á sérstakri afmælissýningu á Tónleiknum BÍTL á föstudaginn verður 500 þúsundasti áhorfandinn verðlaunaður sérstaklega.
Gríðargóð aðsókn hefur verið að þeim sýningum sem sýndar hafa verið í Loftkastalanum á þessu ári. Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu um 15.000 áhorfendur í leikhúsið sem er metaðsókn. Yfir 60 viðburðir voru í húsinu á þessum tíma. Ef sýningar frá öllu leikárinu, frá hausti 2004 fram á sumar 2005 eru taldar með lætur nærri að um 30.000 manns hafi sótt viðburði í húsinu sem alls er þá orðnir yfir 100 talsins á leikárinu öllu.
Sýningum lauk í janúar á einni vinsælustu leiksýningu ársins 2004, Eldað með Elvis, en þá hafði sýningin verið á fjölunum í eitt ár og yfir 10.000 manns séð hana. Auk þess var sýningin færð upp á Akureyri og þar sáu um 2000 manns Kónginn á sviðinu. Grínleikritið Ég er ekki hommi var frumsýnt 22. janúar og lauk sýningum á því um miðjan apríl en þá höfðu um 3000 manns séð sýninguna.
Leikfélag MH frumsýndi Martröð á Jólanótt um áramót og þegar sýningum lauk undir lok janúar höfðu yfir 1200 manns höfðu séð sýninguna, söngleikur Leikfélags MS, Komin til að sjá og sigra var sýndur fyrir um 1500 manns í febrúar og mars og Nemendamótsnefnd Verzlunarskólans frumsýndi Welcome to the Jungle þann 3. febrúar. Í lok mars hafði sýningin verið sýnd alls 20 sinnum fyrir um 6000 manns. Söngleikurinn Múlan Rús sem nemendur Fjölbrautarskólans í Garðabæ settu upp var frumsýndur 26. maí og sýndur nokkrum sinnum fyrir um 2000 áhorfendur. Í júní lagði svo Leikfélag Hornafjarðar land undir fót og sýndi vel heppnaða uppfærslu af rokkóperunni Superstar tvisvar sinnum 18. og 19. júní. Tónleikurinn Bítl var frumsýndur 24. júní í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar. Nú hafa um 5000 áhorfendur séð sýninguna. Tónleikurinn Bítl verður sýndur alla föstudaga í ágúst og um helgar í vetur. Auk þess hafa tónleikar og aðrar uppákomur verið vel sótt.
Á föstudaginn kemur, þann 12. ágúst verður haldið uppá þessi timamót með skemmtilegri afmælishátíð í Loftkastalanum. Húsið opnar kl. 20.30. Sérstakt miðaverð í tilefni afmælisins er krónur 1995 en það er árið sem Loftkastalinn var opnaður. Léttar veitingar verða í boði og einn kaldur fylgir með miðanum. Tónleikurinn BÍTL hefst kl. 21 og munu gestasöngvarar taka þátt í sýningunni í tilefni dagsins. Að sýningu lokinni verður þessum tímamótum fagnað fram á nótt.
TÓNLEIKURINN BÍTL – BESTU BÍTLALÖGIN OG ALMENNT EÐALGLENS!
Þú kannt öll lögin! Bestu og skemmtilegustu Bítlalögin í bland við almennt eðaglens er hættuleg blanda fyrir þá sem eru með óþjálfaða andlitsvöðva. Nauðsynlegt er að vera búinn að kæla sig vel niður áður en sýningin hefst, taka einn léttan með sér inn í salinn og vera við öllu búinn, því áhorfendur taka virkan þátt í sýningunni með því að syngja með. Þeir sem eru með nettan húmor og hafa gaman af góðu gríni ættu því að fara skælbrosandi heim að lokinni sýningu. BÍTL er ekki leiksýning né söngleikur heldur fyrsti íslenski "tónleikurinn" þar sem áhorfendur skipta mestu máli.
Leikstjóri sýningarinnar er Hilmir Snær Guðnason, gítarleikarar og söngvarar eru Jóhannes Ásbjörnsson og Sigurjón Brink og tónlistarstjóri er Pálmi Sigurhjartarson. Leikmynd og lýsing er í höndum Sigurðar Kaiser, um hljóðstjórn sér Úlfar Jacobsen, ljósastjórn er í höndum Gísla Berg og framkvæmdastjóri er Róbert Aron Róbertsson.
Næstu sýningar á Tónleiknum Bítl eftir afmælishátíðina eru föstudaginn 19. ágúst og föstudaginn 26. ágúst. Miðaverð er krónur 2200 eða krónur 2500, en þá fylgir einn ískaldur með miðanum.
Miðasala er í síma 552 3000 eða á netinu, slóðin er www.loftkastalinn.is.