Aðalfundur Leikfélags Selfoss var haldinn þann 30. apríl síðastliðinn. Að venju var rennt yfir starf liðins árs, sem var í senn geysiöflugt og fjölbreytt. Má þar nefna söngnámsskeið, Hugarflug og svo uppsetningu á Þreki og tárum, sem gekk mjög vel. Nokkrir nýir félagar gengu til liðs við félagið og margir buðu sig fram til starfa. Sigrún Sighvatsdóttir ákvað hætta sem formaður leikfélagsins eftir áralanga setu í því embætti og fékk hún mikið lof fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Að sögn fróðra félaga hefur fjöldi þeirra sem bauð sig fram til stjórnar aldrei verið meiri og kosningarnar spennandi eftir því. Í formannsslagnum hafði Sigríður Hafsteinsdóttir sigur. Var ný stjórn kosin svo og skipti með sér verkum þannig:

Sigríður Hafsteinsdóttir formaður
F. Elli Hafliðason varaformaður
Svanhildur Karlsdóttir gjaldkeri
Finnur Hafliðason ritari
Kristrún Jónsdóttir meðstjórnandi

Varastjórn var kjörin:
Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Erla Dan Jónsdóttir, Lilja Jóna Halldórsdóttir.

Leikfélagið tók þátt í bæjarhátíðinni Vor í Árborg sem fram fór helgina 10.-12. maí með opnu húsi. Framundan er svo Hugarflug í lok maí, sem er opinn viðburður fyrir fólk til að sýna stuttverk, syngja eða framkvæma annan gjörning. Hafa undanfarin Hugarflug verið mjög fjölbreytt og stefnir allt í að ekki verði nein breyting þar á.