Nú er að baki aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga 2008 og var hann haldinn í boði Leikfélags Sauðárkróks í Árgarði í Skagafirði dagana 3. 4. maí. Var mál manna að fundur hinn hafi allur verið hinn besti og vel að honum staðið hjá Sauðkrækingum í hvívetna en þeir tóku á móti fundargestum á föstudagskvöld með kraftmikilli og vandaðri sýningu á farsanum Viltu finna milljón?
Fundurinn var með afar hefðbundu sniði og engin stór hitamál. Hinar ýmsu nefndir skiluð skýrslum um starfsemi á árinu og munu þær verða gerðar aðgengilegar í aðalfundargerð sem mun verða birt hér á Leiklistarvefnum um leið og hún hefur verið fullunnin.
Talsverðar breytingar urðu á stjórn Bandalagsins á fundinum og ber þar fyrst að nefna að Lárus Vilhjálmsson lét af stjórnarstörfum eftir níu ára samfellda setu í stjórn og varastjórn. Einnig hætti í stjórn Hrund Ólafsdóttir en í þeirra stað komu Guðfinna Gunnarsdóttir frá Leikfélagi Selfoss, sem fyrir sat í varastjórn, og Hörður Sigurðarson Leikfélagi Kópavogs, sem kom aftur inn í stjórn eftir nokkurra ára hlé. Ingólfur Þórsson Freyvangsleikhúsinu náði endurkjöri og er nýr varaformaður Bandalagsins en auk þessara sitja í aðalstjórn Þorgeir Tryggvason formaður og Embla Guðmundsdóttir ritari.
Nýjar inn í varastjórn komu Halla Rún Tryggvadóttir Leikfélagi Húsavíkur, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir Hugleik og Elva Dögg Gunnarsdóttir Leikfélagi Hafnarfjarðar en hún var kosin til eins árs. Úr varastjórn gengu Margrét Tryggvadóttir og Ármann Guðmundsson en þau gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.
Af helstu málum fundarins má nefna að stjórn lagði fram lagabreytingar sem flestar miðuðu að því að laga lögin að ríkjandi vinnulagi. Einnig var sú breyting gerð á úthlutunarreglum Bandalagsins að nú fæst fullur styrkur fyrir sýningar sem eru 80 mínútur að lengd í stað 90 mínútna áður. Styrkur fyrir styttri sýningar er eftir sem áður hlutfall af fullri lengd.
Leshópurinn Lestrarhestar var endurvakinn á fundinum en hann starfaði fyrir um áratug og höfðu félagar í honum það hlutverk að lesa leikrit úr handritasafni Bandalagsins og gera úr þeim stuttan útdrátt til að auðvelda Leikfélögunum leit að verkefnum. Fimmtán manns skráðu sig til starfa á fundinum en öllum þeim sem áhuga hafa á að ganga til liðs þá er velkomið að hafa samband við þjónustumiðstöð og skrá sig.
Ákveðið var að halda bæði haustfund og Margt smátt stuttverkahátíð næsta haust og verða nánari upplýsingar um hátíðina birtar um leið og undirbúningsnefnd tekur til starfa. Einnig var ákveðið að skipa nefnd sem leita á leiða til að öll þau félög sem óska eftir að fá gagnrýni á sýningar sínar birta á Leiklistarvefnum, fái hana. Í tengslum við þetta var ákveðið að jafnframt yrði næsta haust haldið námskeið þar sem stjórnun leikfélaga, kynningarmál og gagnrýniskrif yrðu kennd.
Á hátíðarkvöldverði á laugardagskvöldið var boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði, Leikfélag Selfoss sýndi stuttan leikþátt eftir Tsjékoff, Leikfélag Hafnarfjarðar flutti metnaðarfullt tónlistaratriði, tveir meðlimir Ljótu hálfvitanna tóku nokkur lög, stórleikonan Herdís Þorvaldsdóttir, sem stödd var þarna ásamt Tinnu Gunnlaugsdóttur, dóttur sinni, hélt sérdeilis skemmtilega tölu og rúsínan í pylsuendanum var svo þegar sjálfur sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson birtist og lék undir fjöldasöng. Sérdeilis skemmtilegur veislustjóri var Kristján Snorrason, útibússtjóri Sparisjóðs Skagafjarðar og notaði hann tækifærið og færði Leikfélagi Sauðárkróks veglegan styrk.